Heimurinn að bregðast börnum sínum

19.02.2020 - 06:29
Mynd með færslu
 Mynd: pexels - skitterphoto
Ríki heims bregðast öll skyldum sínum gagnvart börnum og framtíðarkynslóðum. Ekki er nóg gert til að vernda heilsu barna eða forða þeim frá þeim hættum sem þeim stafar af loftslagsbreytingum og slæmu mataræði. Þetta er á meðal niðurstaðna tímamótaskýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðheilbrigðisstofnunarinnar og læknaritsins Lancet. Heilsu hvers einasta barns á þessari Jörð, segir í skýrslunni, er ógnað nú þegar.

 Yfir 40 leiðandi sérfræðingar í heilbrigði barna og unglinga komu að gerð skýrslunnar. Þeir segja ekkert ríki heims gera nóg til að verja framtíðarkynslóðir fyrir afleiðingum CO2-losunar, eyðileggingu náttúrunnar og síauknu framboði, markaðssetningu og neyslu á hitaeiningaríkum, unnum og óhollum matvælum. 

 

Rannsóknir bendi til að börn í ákveðnum löndum sjái allt að 30 þúsund auglýsingar á ári, bara í sjónvarpi. Í Bandaríkjunum sé áætlað að rafrettuauglýsingar hafi náð til rúmlega 24 milljóna ungmenna á síðustu tveimur árum sem sé aukning um 250 prósent.

Prófessorinn Anthony Costello, einn höfunda skýrslunnar, segir að tilraunin með að markaðurinn hafi eftirlit með sjálfum sér hafi misheppnast hvað þetta varðar og hindri ekki að auglýsingum sé beint að börnum. Í Ástralíu hafi rúmlega 50 milljónir áfengisauglýsinga orðið á vegi barna og ungmenna á einu ári við að horfa á íþróttaviðburði í sjónvarpi eins og fótbolta, krikket og ruðning. Þá sé ekki tekið með inn í reikninginn aukin umsvif á samfélagsmiðlum og auglýsingaefnið þar. 

Ísland hrapar á listanum 

 

Í skýrslunni er lagt mat á velferð barna í 180 ríkjum heims. Noregur trónir á toppnum, næst best er fyrir börn að vaxa úr suður-kóresku grasi og Hollendingar búa börnum sínum þriðju bestu framtíðarhorfurnar. Ísland er í  níunda sæti, á milli Belgíu og Bretlands.

„Ísland er að koma vel út ef við skoðum þessa mælikvarða sem við þekkjum og eru oft skoðaðir í þessum skýrslum, það er að segja heilsa, jafnræði, menntun og annað slíkt,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.  

„En ef við tökum inn sjálfbærnivísa, það er að segja, vísa sem snúa að loftslagsmálum og losun gróðurhúsalofttegunda, þá hrapar Ísland niður listann og endar í 163. sæti, sem segir okkur bara að líkt og fleiri iðnvæddar efnahagsþjóðir þá erum við að menga of mikið og erum þannig að bregðast börnum heimsins til lengri tíma.“

Fram kemur í skýrslunni að einu löndin, sem eru á réttri leið með að ná losunarmarkmiðum sínum miðað við höfðatölu fyrir árið 2030 og eru líka á topp 70 yfir þjóðir þar sem börn lifa og dafna best, séu Albanía, Armenía, Grenada, Jórdanía, Moldóva, Srí Lanka, Túnis, Úrúgvæ og Víetnam.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi