Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Heimur í handabandi

Heimur í handabandi

06.04.2017 - 09:07

Höfundar

Elísabet Jökulsdóttir segir frá handabandi í lífi sínu.

Hvað átti Merkel að segja þegar Trump neitaði að taka i hönd hennar og heilsa? Segja: Give me five, eða klesstan. En hún gerði ekki neitt og þess vegna sást mjög vel hvað var á seyði. Stundum er gott að gera ekki neitt í staðinn fyrir að breiða yfir með fíflalátum eða þesskonar.

Það er handaband í lífi mínu sem ég hef aldrei áttað mig á. Afi elsta stráksins míns, Kristinn á Dröngum var veikur af krabbameini og fór ég til að heilsa uppá hann áður en ég færi utan. Mér datt ekki í hug annað en hann næði sér þótt hann væri áttræður, hann hafði róið á útilegubátum, hlaupið uppi rostunga, barist á síðutogurum, og annað í þeim dúr, við höfðum eytt heilum vetri saman þar sem ísbjarna var von og krían kom með vorið.

Nú kvaddi ég hann með handabandi og keyri sem leið liggur frá Akranesi en þar hélt hann til í lækningaskyni. Þegar ég er komin dágóðan spöl frá bænum, þá finn ég eitthvað í hendinni, hún er eitthvað skrítin, hún byrjar að hreyfa sig af sjálfu sér.

Ég legg útí kant og tek um hendina, þá er mér ljóst að ég muni ekki sjá hann aftur, hann var að kveðja, í þessu handabandi rúmuðust öll okkar kynni. Þetta var eins og stimpill. Og þegar ég opnaði lófann betur fann ég þennan bát. Og þá rann upp fyrir mér að handaband er ekki bara brú milli fólks heldur heilt pláss út af fyrir sig.