Heimspekin og kjarnorkuváin í Múmíndal

Mynd: RÚV / RÚV

Heimspekin og kjarnorkuváin í Múmíndal

10.04.2019 - 13:03

Höfundar

Fyrir jólin kom út safn með þremur sígildum sögum úr Múmíndal og í haust bætist enn eitt safnið við. Þórdís Gísladóttir, þýðandi Múmínálfanna, ræddi við Egil Helgason um sögurnar og leynilegar vísanir í tíðarandann og persónulegt líf höfundarins Tove Jansson.

Múmínálfarnir eftir Tove Jansson eru barnabækur sem flestir Íslendingar þekkja og í gegnum tíðina hefur myndast hálfgerð aðdáendahjörð í kringum persónurnar í Múmíndal. Í safninu sem Forlagið gefur út í haust má meðal annars finna eina sögu sem aldrei hefur áður komið út á íslensku, Endurminningar Múmínpabba. Hún er ein af þessum löngu klassísku bókum eftir Tove Jansson, að sögn Þórdísar Gísladóttur rithöfundar og þýðanda, og tímabært að aðdáendur á Íslandi kynnist henni. Safnið sem kom út fyrir jól, í þýðingu Þórdísar Gísladóttur og Steinunnar Briem, var í fyrsta sæti í flokki þýddra barnabóka í Verðlaunum bóksala 2018.

Mikill iðnaður hefur myndast í kringum furðuverurnar í Múmíndal. Flestir þekkja til dæmis múmínbollana með myndum af fígúrunum sem eru safngripir á mörgum íslenskum heimilum. „Þetta er í dag orðið ættarveldi,“ segir Þórdís um múmíniðnaðinn. „Tove Jansson átti sjálf engin börn, en bróðurbörn hennar sjá um útgáfu á verkunum og eru með leyfið fyrir bollunum og öðrum vörum tengdum álfunum. Mér hefur stundum þótt nóg um, og fundist vörurnar skyggja á sögurnar. Auðvitað er þetta samt skiljanlegt.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Múmínbollana þekkja flestir Íslendingar

Tove Jansson var ekki bara rithöfundur heldur var hún afar fær myndlistarkona, og margar myndirnar af karakterunum í Múmíndal urðu til á undan sögunum. Tove myndskreytti fleiri sögur en sínar eigin og eru til útgáfur af Hobbitanum og Lísu í Undralandi með myndskreytingum eftir hana. Galdurinn á bak við Múmínálfana og vinsældir þeirra segir Þórdís að sé litríkt persónugallerí. Karakterarnir eru afar mannlegir og hafa sterk persónueinkenni þrátt fyrir að vera furðuverur. „Þetta eru auðvitað barnabækur en þær fjalla líka um alvarleg málefni á borð við kjarnorkuvána, vetrarstríðið í Finnlandi og ýmis konar hamfarir. Það er það besta við góðar barnabækur þegar fullorðnir finna líka sinn flöt sem þeir geta tengt við.“ Aðspurð segir Þórdís að Múmínmamma sé hennar uppáhald, hún dáist að lífsspeki hennar og æðruleysi. „Múmínmamma lætur bara ekkert á sig fá. Þegar hengirúmið er ónýtt segir hún til dæmis bara: Æ, það var svo ljótt á litinn hvort sem er.“

Tove Jansson var barnlaus en hún eignaðist ástkonu og lífsförunaut í grafíska hönnuðinum Tuulikki Pietilä um 1950. Þær hófu fljótlega sambúð sem entist þeim ævina. Tuulikki bregður fyrir í bókunum sem furðuverunni Tikkatú en Tikkatú elskar vetur og snjó og er sú eina í Múmíndal sem leggst ekki í dvala á veturna. Tikkatú býr í sundlaug Múmínálfanna á veturna með átta ósýnilegum músardýrum.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons

Tove og Tuulikki unnu mikið saman um ævina og ferðuðust um heiminn. Samkynja sambönd voru bönnuð í Finnlandi fram á áttunda áratuginn og áhrif þeirrar togstreitu í lífi Tove má greina í þætti Morrans sem er vinsæll karakter úr bókunum en jafnframt sá skelfilegasti. Morrinn var kvenkyns í upprunalegri útgáfu bókanna og birtist sem ógn við samband Þönguls og Þrasa, sem eru karakterar sem leiðast og hafa meðferðis litla ferðatösku, en innihald ferðatöskunnar er fallegt leyndarmál sem enginn má taka af þeim. Þöngull og Þrasi eru byggðir á Tove og fyrrum ástkonu hennar Vivicku Bandler. Þær áttu í stuttu leynilegu sambandi á meðan Vivicka var gift. Morrinn eltir Þöngul og Þrasa, reynir að ræna leyndarmálinu og frystir allt sem þeir snerta.

„Morrinn ógnar þeim. Hann er þessi kalda týpa sem hræðir þá. Svo hlýnar í Múmíndal og þá vingast Múmínsnáðinn við Morrann og þá hættir jörðin að vera frosin undan honum. Í ljós kom að hann var bara einmana,“ segir Þórdís.

Egill Helgason ræddi við Þórdísi í Kiljunni.

 

Tengdar fréttir

Hönnun

Rándýra múmínbollanum skilað vegna galla

Bókmenntir

Kamilla með forvitnilegustu kynlífslýsinguna

Bókmenntir

Horfið ekki í ljósið - Þórdís Gísladóttir

Bókmenntir

Orð um bækur í hátíðarskapi í miðbænum