Heimspeki mikilvæg sem aldrei fyrr

Mynd:  / 

Heimspeki mikilvæg sem aldrei fyrr

29.12.2018 - 13:30

Höfundar

„Að mínu mati yrði það mikið gæfuspor ef listiðkun og iðkun heimspekilegrar hugsunar fengju aukið vægi í menntakerfum framtíðarinnar, þar sem þessar greinar veita umfram aðrar greinar tengingu við eigin rödd og líkama.“ Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, pistlahöfundur Víðsjár, fjallar um líkamlega skynjun í nútímavæddum heimi.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir skrifar:

Lokaðu augunum og ímyndaðu þér að þú standir frammi fyrir uppáhaldslistaverkinu þínu.  Finndu hvernig það er að upplifa þetta verk, hvaða áhrif það skapar innra með þér. Það er líklega óljós skynjun, tilfinning, sem erfitt er að lýsa, en á sama tíma er hún mjög sterk og ákveðin (skynjunin væri allt öðruvísi ef þú værir að ímynda þér eitthvað annað verk).

Tókuð þið eftir því hvernig áhrifin af listaverkinu voru líkamleg? Hvernig þau birtust á svipaðan hátt og t.d. þegar við fáum fiðrildi eða hnút í magann, eða kökk í hálsinn, á þessu svæði líkamans á milli höku og nára? Hafið þið líka tekið eftir því hvernig svona líkamleg viðbrögð koma t.d. fram þegar okkur finnst við hafa eitthvað að segja, en höfum ekki enn fundið réttu orðin til þess, eða bíðum eftir því að komast að í umræðunni? Hafið þið tekið eftir því hvernig sumar fréttir sem við fáum kastast eins og harður bolti í magann á meðan aðrar valda örum hjartslætti eða hlýju í hjarta? Hafið þið tekið eftir því hvernig ákveðin skynjun eða tilfinning fylgir hverri manneskju sem þið þekkið, ef þið lokið augunum og ímyndið ykkur að hún gangi inn um dyrnar?

Þetta sem ég er að biðja ykkur að taka eftir er skynjun ykkar á heiminum. Af hverju þarf ég að biðja ykkur að taka eftir henni? Kannski vegna þess að við erum mörg gjörn á að veita þessu innra viðbragði líkamans litla eða enga athygli. Í heimi tvíhyggju þar sem tilfinningar eru settar skör lægra en skynsemi og líkami skör lægra en hugurinn er mörgum kennt að hundsa þessi viðbrögð. Við erum kannski helst vön því að taka eftir svona viðbrögðum einmitt þegar við upplifum listaverk. Það er í raun það sem vestræn samfélög hafa gert, skapað ákveðin sérhönnuð rými fyrir listir, þar sem við veitum þessari hlið skynjunarinnar athygli, en þess utan eigum við að ímynda okkur að þessi hlið skipti engu máli þegar kemur að því að höndla heiminn og meðhöndla. En það eru engin skil á milli þessarar tegundar skynjunar, sem kalla má skynvísi, eða fagurferðilega skynjun, og rökvísinnar sem greinir og flokkar og höndlar. Báðar hliðarnar, skynvísin og rökvísin skipta alltaf máli í hverri einustu skynjun, hugsun, skoðun, verki  - þetta tvennt er þegar öllu er á botninn hvolft, ekki tvennt.

Þetta sýna orðin okkur: Skynjun og skilningur eru samtvinnuð í orðunum skynsemi og skilningarvit – segja má að orðin vísi okkur leiðina til þess að afmá skilin á milli rökvísi og skynvísi, skynsemi og tilfinninga, hugar og líkama. Skynsemi sem hliðstæða reason eða rationality segir okkur að rökhugsunin eigi rætur í skynjun, í líkamanum, og skilningarvit sem samheiti allra skynfæranna gefur til kynna að skynfærin, líkaminn, færi okkur skilning. Líkaminn kemur á undan skynjuninni og skilningnum, og fæðir þau af sér, hann er rót allrar skynjunar og skilnings. Líkaminn sem heild kemur á undan hverri skynjun fyrir sig; við skynjum og vitum t.d. eins og innan frá, með öllum líkamanum í heild, þegar það stendur einhver fyrir aftan okkur, þó við hvorki heyrum hann, snertum né sjáum. Það er ekki bara það sem við skynjum utanvið okkur í formi lita, tóna og efna sem er hluti af skynjun okkar, heldur líka það sem við skynjum innanfrá. Orðið skynjun á íslensku nær ágætlega yfir þessa innri og ytri skynjun, en á ensku hefur orðasamsetningin felt sense, eða skynjun sem fundið er fyrir, til að lýsa þessari innri líkamlegu skynjun.

Líkaminn og skynjanirnar sem hann leyfir okkur að finna, aðstæðnatilfinningin sem hann setur okkur í á hverju augnabliki er uppspretta allra hugsana, hugmynda og gilda. Páll Skúlason notar þetta hugtak, aðstæðnatilfinning, í bókinni Merking og tilgangur til að lýsa því hvernig raunveran hefur „alltaf-þegar-fundið-til-sín“ – „henni líður (vel eða illa) á meðal hlutanna, finnur til aðstæðna sinna“ og áfram „aðstæðnatilfinningin táknar stöðu okkar í heiminum sem upprunalegt mót við heiminn og sjálf okkur, þetta mót er grunnurinn að tilfinningalífi okkar … aðstæðnatilfinningin er bakgrunnur tilveru okkar, hún táknar eina grundvallarvídd mannlegrar tilveru“. Í mínum huga er aðstæðnatilfinningin innra landslag líkamans – hún vísar til þess hvernig ytra landslagið sem við skynjum endurómar innra með okkur í innra landslagi líkamans. Aðstæðnatilfinningin, innra landslag líkamans, fagurferðileg skynjun, fundin skynjun, hvað sem við köllum það – þessi vídd skynjunar og skilnings er uppspretta allrar hugsunar, þekkingar og gilda.

Í síðasta pistli talaði ég um að þessi nýi mannskilningur sem gerir ráð fyrir að við séum líkamar, sífellt syndandi um í landslagi, sífellt að finna til aðstæðna sinna, hefur áhrif eða ætti að hafa áhrif á hugsun um og í heimspeki og á menntakerfin okkar almennt.  

Þessi mannskilningur er tengslahyggja um manninn og heiminn, sem líkamar erum við alltaf nú þegar í fjölbreyttum og margslungnum tengslum við allt og alla sem við deilum rými með. Hvaða áhrif hefur þessi tengslahyggja á hugsun okkar um hugsun?

Á þessu ári sem er að líða var sett af stað alþjóðlegt rannsóknarverkefni við Heimspekistofnun HÍ sem ber heitið Líkamleg gagnrýnin hugsun (eða Embodied critical thinking). Það voru þau Sigríður Þorgeirsdóttir, Björn Þorsteinsson og Donata Schoeller sem komu verkefninu af stað ásamt Rannís og HÍ, en markmið verkefnisins, sem ég tek þátt í ásamt fleirum, er að halda áfram þeirri hefð sem hefur myndast í íslenskri heimspeki að hugsa um gagnrýna hugsun, en nú með áherslu á líkamlega hlið hennar. Bakgrunnur verkefnisins liggur að hluta í þeirri hugsun að heimspekin þarfnist vissrar endurnýjunar, en verkefnið varð einmitt til í kjölfarið á annarri rannsókn sem Sigríður leiddi ásamt Eyju Margréti Brynjarsdóttur, en það verkefni bar heitið Feminísk heimspeki umbreytir heimspeki (Feminist philosophy transforming philosophy).

Mikið hefur verið rætt og skrifað um það síðustu ár bæði vestan hafs og austan, að heimspekin og jafnvel hugvísindin í heild sinni eigi undir högg að sækja, að við höfum tapað sýninni á mikilvægi þessara greina. Meðal þess sem feminísk heimspeki og fyrirbærafræði hafa gagnrýnt innan heimspekinnar er skortur á athygli á aðstæðnatilfinningunni, skortur á viðurkenningu á því að sem hugsandi verur erum við ávallt nú þegar staðsettar einhversstaðar í tíma og rúmi sem margbreytilegir líkamar í margslungnum og órjúfanlegum tengslum. Í verkefninu Líkamleg gagnrýnin hugsun spyrjum við meðal annars hvað það þýðir fyrir iðkun heimspekilegrar og fræðilegrar hugsunar og kennslu í slíkri iðkun að taka þennan mannskilning alvarlega. Aðferðirnar sem við byggjum á gera okkur kleift að skoða innra landslag líkamans á nákvæman hátt og eiga í samtali við og um það sem við finnum þar. Þetta innra landslag hefur mótast af því sem við höfum skynjað og því sem við vitum, því sem við skyn-vitum, við könnumst örugglega mörg við það að ferðast ómeðvitað um þetta landslag t.d. þegar við erum á göngu og náum á einhvern hátt að taka til í huganum, eins og líkamleg hreyfingin komi hugsunum á hreyfingu. Þetta getum við líka gert á meðvitaðan hátt með því að beina einbeittri og opinni athygli að eigin hugsun og aðstæðnatilfinningu. Kannski erum við í þessu verkefni að leita aftur í rætur heimspekinnar í Akademíu garði í Aþenu til forna þar sem oft er sagt að heimspekin hafi verið iðkuð í samtali á göngu um stígana sem lágu um garðinn.

Það að verkefni sem þetta sé komið af stað gefur von um að loksins sé komin tími til að beina athygli okkar að þeim rótum allrar okkar þekkingar og gilda sem liggja um líkamann og skynvísina. Annað sem gefur von um að aukið jafnvægi á milli skynvísi og rökvísi sé að finna í framtíðinni er aukin umræða undanfarið um gildi list- og verkgreinakennslu í menntakerfunum okkar. Áhersla á sköpun í nýlegri aðalnámskrá sem og umræðan öll um fjórðu iðnbyltinguna gera að verkum að umbreytingatímabil þarf að fara í gang þar sem menntakerfin aðlagast nýrri hugsun um hlutverk sitt. Það snýst ekki lengur einungis um að fræðslu, að fylla huga okkar af fyrirframgefnum hugmyndum sem læra má utanbókar, heldur að mennta okkur, gera okkur mennsk, gera okkur kleift að skynja umhverfi okkar af fullri athygli og bregðast við því á skynsaman hátt, finna eigin lausnir og finna sinni eigin rödd farveg.

Ég er kannski ekki alveg hlutlaus í þessari skoðun minni, starfandi við listkennsludeild Listaháskólans og við Heimspekistofnun HÍ, en að mínu mati yrði það mikið gæfuspor ef listiðkun og iðkun heimspekilegrar hugsunar fengju aukið vægi í menntakerfum framtíðarinnar, þar sem þessar greinar veita umfram aðrar greinar tengingu við eigin rödd og líkama, og þjálfun í því sem við þurfum mest á að halda inn í framtíðina: skapandi og gagnrýnni, líkamlegri hugsun.