Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Heimildarmynd væntanleg um kvennabúr R. Kelly

epa03964256 US singer R. Kelly arrives for the 41st annual American Music Awards held at the Nokia Theatre in Los Angeles, California, USA, 24 November 2013.  EPA/PAUL BUCK
 Mynd: EPA

Heimildarmynd væntanleg um kvennabúr R. Kelly

25.05.2018 - 12:16

Höfundar

Ásakanir á hendur tónlistarmanninum R. Kelly eru viðfangsefni nýrrar heimildarmyndar sem Buzzfeed News framleiðir fyrir Hulu. Fjölmiðlamaðurinn Jim DeRogatis verður meðal viðmælenda í myndinni en hann skrifaði eldfima 4.800 orða grein í júlí í fyrra þar sem R. Kelly var borinn þungum sökum.

R. Kelly hefur verið sakaður um að hafa beitt fjölda stúlkna og kvenna kynferðisofbeldi og áreitni og spanna ásakanirnar um tvo áratugi. Fyrr í þessum mánuði komu upp fimm ný mál. Árið 2002 var hann sakaður um vörslu barnakláms en málinu var vísað frá. Tónlistarmaðurinn hefur aldrei verið sakfelldur en orðrómur er uppi um að hann hafi samið um greiðslur til þolenda sinna utan dómstóla.

Heimildarmyndin inniheldur viðtöl við ýmsar lykilpersónur úr fortíð Kelly en þar stíga fram konur sem saka hann um að hafa brotið gegn sér. Vitnisburður kollega hans úr tónlistinni í gegnum árin verður einnig í myndinni. DeRogatis sem fylgt hefur málinu eftir hjá Buzzfeed News mun síðan flytja fréttaskýringu um málið í myndinni auk þess sem hann er meðframleiðandi í verkefninu. Einnig verður Marisa Carroll, ritstjóri umfjöllunarinnar um málið hjá Buzzfeed, á meðal viðmælenda.

Líkamlegt, kynferðislegt og andlegt ofbeldi

Í umfjöllun DeRogatis frá 17. júlí 2017 kemur fram að Kelly hafi heilaþvegið fjölda ungra kvenna sem bjuggu á heimili hans í Atlanta og Chicago, en foreldrar þeirra höfðu komið þeim í hans umsjón í góðri trú um að hann myndi aðstoða þær við að byggja upp tónlistarferil. Kelly er sakaður um að hafa tekið kynlífsathafnir með konunum upp á myndband auk þess sem hann á að hafa beitt þær grófu líkamlegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi.

epa05030608 US singer R. Kelly performs the national anthem before the start of the Brooklyn Nets and the Atlanta Hawks, NBA game at the Barclays Center in Brooklyn, New York, USA, 17 November 2015.  EPA/JASON SZENES CORBIS OUT
 Mynd: EPA

 

Myndin hefur enn ekki fengið nafn en verður dreift eingöngu á streimisveitunni Hulu. Enn á eftir að ákveða frumsýningardag. Leikstjóri myndarinnar verður Lyric R. Cabral sem leikstýrði heimildarmyndinni „(T)error“ og hlaut Emmy-verðlaun fyrir. Óskarsverðlaunahafarnir Laura Poitras og Charlotte Cook munu einnig koma að framleiðslunni.

Þá er Lifetime framleiðandinn einnig með heimildarmynd um mál Kelly í pípunum en fyrr í þessum mánuði var tilkynnt um fyrirhugaða framleiðslu sjónvarpsþátta og kvikmyndar um málið. Heimildarmyndin um R. Kelly er nýjasta samstarfsverkefni Hulu og Buzzfeed News. Þann 9. júlí fer ný sjónvarpsþáttaröð í loftið á þeirra vegum sem dreift verður á Netflix sem ber titillinn „Follow This“. Þar framleiðir starfsfólk Buzzfeed 15 mínútna þætti í hverri viku.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

R. Kelly kærður fyrir kynferðisofbeldi

Erlent

R. Kelly enn á ný sakaður um ofbeldi