Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Heimavellir losa óhagstæðar íbúðir

10.09.2018 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Leigufélagið Heimavellir selur nú ákveðnar íbúðir úr eignasafni sínu víða um land og segir upp samningum við þá sem þar búa. Framkvæmdastjórinn segir þetta lið í að gera eignasafnið hagkvæmara, félagið vilji helst eiga heilar húseignir. Leigjendum sé boðið að kaupa eða forgangur að annarri leiguíbúð ef hún er í boði. Heimavellir eru með lán frá Íbúðalánasjóði en sjóðurinn má aðeins lána til félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Heimavellir högnuðust um 2,7 milljarða króna í fyrra, að hluta vegna þess að íbúðir hækkuðu í verði. Félagið átti um 2000 íbúðir um áramót og hafði tryggt sér kaup á 340 til viðbótar. Á fyrri helmingi þessa árs tapaði félagið 136 milljónum. Heimavellir hafa gefið sig út fyrir að bjóða örugga langtímaleigu en núna eru þeir að endurskipuleggja eignasafnið, eins og það er kallað, og selja ákveðnar eignir. Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri segir að leigjendur í ákveðnum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Selfossi, Hveragerði, Akranesi, Akureyri, Egilsstöðum og Reyðarfirði sé boðið að kaupa íbúðina eða leigja aðra ef hún er í boði. „Í öllum tilfellum þar sem við höfum þurft að segja upp fólki leigu þá gengur það fyrir með leigu annars staðar. Við erum þá að kaupa inn hagkvæmari leigueiningar á móti þannig að safnið sé eins hagkvæmt í rekstri og það getur orðið til lengri tíma litið,“ segir Guðbrandur. 

Heimavellir vilji helst eiga heilar húseignir eða margar íbúðir í sömu blokkinni en síður stakar íbúðir á stangli. Nokkur umræða var um félagið eftir að Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við að Íbúðalánsjóður hefði lánað félaginu en Heimavellir keyptu á sínum tíma fjölda íbúða af sjóðnum sem ekki má lána til leigufélaga sem eru rekin í gróðaskyni. Guðbrandur segir að stefnan sé að endurfjármagna lánin frá Íbúðalánasjóði. „Það er auðvitað lögð mikil áhersla núna á leigufélög fyrir þá sem eru með lægri tekjur en ella núna um þessar mundir sem er auðvitað bara mjög gott. En auðvitað erum líka að þjónusta fólk á öðrum hluta markaðarins má segja, það sem við köllum almennan leigumarkað. Við erum að vinna í því og stefnum að því að reyna að endurfjármagna þessi lán núna í haust og á næstu mánuðum,“ segir Guðbrandur.