Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Heilsufarsleg og efnahagsleg ógn

22.09.2016 - 15:22
Mynd: - / flickr.com
Áætlað hefur verið að árlega deyi sjö hundruð þúsund manns vegna sýklalyfjaónæmis. Óttast er að þessi tala eigi eftir að margfaldast næstu áratugi. Leiðtogar heimsins hafa nú undirritað yfirlýsingu um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi. Stefán Gíslason fjallar um málið í pistli sínum í Samfélaginu.

Á sérstökum fundi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í gær gengu leiðtogar ríkja heims frá tímamótayfirlýsingu um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi. Þessi yfirlýsing var ekki búin til að tilefnislausu, en áætlað er að árlega deyi um 700.000 manns í heiminum vegna sýkinga sem tiltæk sýklalyf eru hætt að vinna á. Líklega er þessi fjöldi meira að segja vanreiknaður, því að ekki er til neitt samræmt bókhald yfir dauðsföll af þessum sökum á heimsvísu.

Lengi vitað af hættunni

Sýklalyfjaónæmi á sér nokkrar mismunandi orsakir, en líklega á ofnotkun sýklalyfja, og ekki síður röng notkun þeirra, stærstan hlut að máli. Þannig getur takmörkuð eða langvarandi notkun lyfja í litlum skömmtum leitt til þess að þeir einstaklingar í bakteríuhópnum sem þola lyfið best fjölgi sér mest og verði smám saman allsráðandi. Þetta virkar með öðrum orðum rétt eins og hverjar aðrar kynbætur eða náttúruval, þar sem þeir hæfustu lifa og fjölga sér á meðan þeim veikbyggðari er rutt úr vegi.

Menn hafa svo sem vitað það lengi að sýklar gætu þróað með sér ónæmi gegn lyfjunum sem notuð eru gegn þeim. Einn þeirra fyrstu sem varaði við þessu var Alexander Fleming, sem uppgötvaði pensillínið árið 1928. Þegar hann tók við Nóbelsverðlaununum árið 1945, ásamt þeim Florey og Chain sem gerðu pensillín að sýklalyfi, sagði hann að hætta væri á að menn myndu í kæruleysi sínu taka of litla skammta sem væru ekki banvænir sýklum og gæfu þeim þar með færi á að þróa með sér ónæmi.

Sýklalyfjanotkun í landbúnaði á stóran þátt

Sjö hundruð þúsund dauðsföll á ári er kannski ekkert óskaplega há tala miðað við fjölda jarðarbúa, þó að vissulega sé hún sláandi í íslensku samhengi. En þetta er líka bara byrjunin. Í skýrslu sem unnin var fyrir bresk stjórnvöld á liðnu vori var til að mynda áætlað að þessi árlega dánartala verði komin í 10 milljónir árið 2050 ef mönnum mistekst að takast á við vandann.

Sýklalyfjanotkun í landbúnaði er talin eiga stóran þátt í því vandamáli sem sýklalyfjaónæmi er vissulega orðið. Eins og staðan er í dag eru um 70% af öllum sýklalyfjum sem ætluð eru fólki notuð sem íblöndunarefni í fóður og vatn fyrir húsdýr, ekki til að lækna þau af sýkingum, heldur til að örva vöxt. Reglubundin notkun af þessu tagi hefur verið bönnuð í löndum Evrópusambandsins frá því í ársbyrjun 2006, en hún er enn leyfileg vestan hafs. Í Bandaríkjunum tekur bann við notkun sýklalyfja sem vaxtarhvata gildi árið 2017, þannig að líklega hægir þá eitthvað á þróun sýklalyfjaónæmisins. En þetta er jú bara einn þáttur af fleirum.

Skyndibitakeðjur fá flestar falleinkunn

Í fyrradag birti hópur nokkurra umhverfis-, neytenda- og heilbrigðissamtaka í Bandaríkjunum skýrslu um frammistöðu nokkurra helstu veitingahúsakeðja í viðleitninni við að draga úr sýklalyfjainnihaldi í matnum sem þau selja, því að auðvitað má búast við að eitthvað af lyfjunum sem dýrunum er gefið reglulega sé enn til staðar í kjötinu þegar það kemur á borð veitingahúsagesta. Í skýrslunni er 25 stærstu skyndibita- og veitingahúsakeðjum vestanhafs gefnar einkunnir, sem byggðar voru á beinum viðtölum við hlutaðeigandi aðila og athugun á vefsíðum þeirra og ársskýrslum.

Aðeins 9 af þessum 25 aðilum stóðust prófið, sem er þó um það bil tvöfalt fleiri en í fyrra þegar sambærileg skýrsla var gefin út í fyrsta sinn. Sextán eiga hins vegar enn langt í land og fengu falleinkunnina F. Þeirra á meðal eru nokkrar keðjur sem Íslendingar þekkja vel, svo sem KFC, Dunkin' Donuts, Domino's, Starbucks og Burger King. Nokkrar keðjur hafa hins vegar tekið sig verulega á og gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að gestir þeirra fái sýklalyfjaleifar á diskinn sinn. Í þeim hópi eru m.a. Subway og McDonald's, en bæði þessi fyrirtæki hafa nýlega skerpt á stefnu sinni hvað þetta varðar. Reyndar var Subway hástökkvari ársins, hækkaði sig úr einkunninni F á síðasta ári upp í B á þessu ári. Subway hefur heitið því að útrýma sýklalyfjaleifum úr öllum sínum kjötvörum fyrir árið 2025 og í marsmánuði á þessu ári byrjuðu þau að afgreiða sýklalyfjalausan kjúkling í öllum sínum verslunum í Bandaríkjunum. McDonald's þokaðist líka upp töfluna, þ.e.a.s. úr C í C+, en í síðasta mánuði tilkynnti keðjan að kjúklingur á öllum 14.000 veitingastöðum fyrirtækisins vestanhafs væri orðinn sýklalyfjalaus.

Almennt virðist reyndar ganga betur að draga úr sýklalyfjanotkun í kjúklingarækt en í svína- og nautgriparækt. Alla vega hefur The Guardian það eftir Sasha Stashwic hjá National Resources Defense Council (NRDC) sem er einn þeirra aðila sem stóðu að skýrslunni, að árið í ár sé svo sannarlega ár kjúklingsins. Þannig hafi á að giska 40% allra kjúklingaframleiðenda í Bandaríkjunum hætt eða lofað að hætta reglubundinni notkun sýklalyfja sem ætluð eru mönnum. Hins vegar hefur lítið sem ekkert gerst í svína- og nautgriparæktinni að sögn skýrsluhöfunda.

Sé aftur vikið að einkunnum einstakra fyrirtækja var Dunkin' Donuts eina fyrirtækið sem sýndi marktæka afturför milli ára. Þar lækkaði einkunnin úr C í F, þar sem skýrsluhöfundar töldu sig sjá merki um bakslag í endurskoðaðri stefnu fyrirtækisins, auk þess sem stefnan þótti óskýr og ruglingsleg. Þá er þess sérstaklega getið að KFC hafi ekki gripið til neinna aðgerða þrátt fyrir að hafa tekið á móti undirskriftalista með nöfnum 350.000 neytenda sem kröfðust þess að fyrirtækið gæfi út skýra stefnu um útrýmingu sýklalyfjaleifa úr kjúklingabitunum sínum. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu KFC stendur ekki til að gera neitt í málinu fyrr en bann við reglubundinni sýklalyfjagjöf tekur gildi á næsta ári.

Gríðarlegt efnahagslegt tjón

Óhófleg og ógætileg notkun sýklalyfja er ekki aðeins orðin svo mikil heilsufarsógn að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna telji tilefni til að funda sérstaklega um málið, heldur hefur þessi vandi líka miklar efnahagslegar afleiðingar. Í drögum að skýrslu Alþjóðabankans um málið, sem birt voru í síðustu viku undir yfirskriftinni „Lyfjaónæmar sýkingar: Ógn við efnahagslega framtíð okkar“ kemur til að mynda fram að ef ekki verði gripið til viðeigandi samræmdra aðgerða geti beint og óbeint efnahagslegt tjón orðið í líkingu við það sem varð í hruninu árið 2008 og á árunum þar á eftir. Reyndar muni áhrifin verða enn verri að tvennu leyti. Annars vegar muni þeirra gæta áratugum saman og hins vegar muni þau hafa í för með sér enn meiri mismunun milli þjóða, þar sem hagvöxtur í fátækari löndum muni dragast enn meira saman en annars staðar. Það er sem sagt full ástæða til að hafa áhyggjur af þróun þessara mála.

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður