Heillandi stórsýning um einelti og réttlæti 

Mynd:  / 

Heillandi stórsýning um einelti og réttlæti 

18.03.2019 - 19:50

Höfundar

Söngleikurinn Matthildur er glæsileg sýning sem stendur sambærilegum sýningum um allan heim fyllilega á sporði, að mati gagnrýnanda Menningarinnar.

Brynhildur Björnsdóttir skrifar:

Skáldsagan Matthildur eftir Roald Dahl kom út árið 1988 og náði fljótlega að skipa sér sess sem ein af ástsælustu barnabókum heims. Sagan fjallar um litla stelpu sem er einstaklega bráðger, les heimsbókmenntir og geimvísindi og lærir rússnesku til að geta lesið Dostojevski á frummálinu. Hún virðist hins vegar vera stökkbreyting frá foreldrum sínum sem eru bæð fáfróð, óhefluð og hreinlega vond á köflum og finnst hæfileikar hennar óeðlilegir en ekki undursamlegir. Í skólanum finnur Matthildur grið hjá kennaranum sínum, Fríðu Hugljúfu en til mótvægis hrellir skólastjórinn Karitas Mínherfa hana, og raunar öll börnin í skólanum með frumlegum og fautalegum refsingum og eineltistilburðum. Matthildur er hins vegar staðráðin í því að láta ekki óréttlæti viðgangast og tekst ásamt skólafélögum sínum á við skólastjórann og ægivald hennar. 

Söngleikurinn um Matthildi var frumsýndur í Bretlandi árið 2010 og hefur síðan margverðlaunaður farið sigurför um heiminn og komið við bæði á Broadway og West End. Þetta er sem sagt risasöngleikur á heimsmælikvarða sem einhverjir hafa vafalaust séð í öðrum uppfærslum úti í heimi og þessi sýning á stóra sviði Borgarleikhússins stendur alveg undir þeim heimsmælikvarða, bæði hvað varðar umgjörð og frammistöðu einstakra listamanna.

Mynd með færslu
 Mynd:

Að öðrum ólöstuðum eru það þó börnin sem bera sýninguna uppi, bæði í söng, dans og leik. Sextán ungir leikarar skipta með sér sýningum í tveimur hópum og sá hópur sem ég sá stóð sig sig alveg einstaklega vel, bæði í einstaklingshlutverkum og hópatriðum og gáfu fullorðnum atvinnudönsurum og leikurum lítið eftir. Það svo sem alveg ástæðulaust að vera neitt hissa á því, bæði geta börn almennt miklu meira en fullorðnir ætla þeim, börn eru í ímyndunarleik allan daginn, eru fljót að læra utan að, óheft í tjáningu og gjarnan orkumikil og svo eru líka fjölmörg börn sem verja tómstundum sínum í leiklist á sama hátt og aðrir eru í tónlist eða íþróttum. Þetta dregur ekkert úr því hvað börnin standa sig vel, við þurfum bara ekki alltaf að vera svona hissa á því sem þau geta. 

Börnin bera uppi sýninguna 

Hlutverk Matthildar er mjög krefjandi, hún ber sýninguna uppi og leiðir hana áfram á köflum, er ein á sviðinu á stundum og syngur flóknar tónsmíðar. Þrjár níu og tíu ára leikkonur fara með hlutverkið og skipta sýningunum á milli sín. Ísabel Dís Sheehan fór með hlutverk Matthildar á frumsýningu af einlægni og sannfæringu og átti stjörnustund þar sem áhorfendur hreinlega misstu sig í fagnaðarlátum frá því hún steig fyrst á svið, 

Mynd með færslu
 Mynd:

Fullorðnu leikararnir áttu líka sína góðu spretti, foreldrar Matthildar eru leiknir af Birni Stefánssyni og Völu Kristínu Eiríksdóttur og eru bæði mjög fyndin, hún sem einhvers konar Silvía Nótt samkvæmisdansins og hann sem dæmigerður bílabraskari á lagalega dökkgráu svæði. 

Fríða Hugljúf er nákvæmlega eins og nafnið gefur til kynna í meðförum Rakelar Bjarkar Björnsdóttur sem fer vel með innri togstreitu hinnar undirokuðu og hjartahlýju kennslukonu og aðrir leikarar og dansarar skila sínu afskaplega vel, dansa, syngja, færa leikmyndir og gefa af sér með orku og innlifun. Hliðarsagan af sirkusnum sem Matthildur segir bókasafnsfræðingnum Filippíu sem leikin er af Ebbu Katrínu Finnsdóttur er ekki í bókinni og virðist sett inn af handritshöfundum til að koma fyrir litríkum og töfrandi sirkusatriðum og þar er einstök unnun að fylgjast með samleik Ísabelar og Arnars Dan sem leikur sjónhverfingamanninn og fer auk þess með fleiri hlutverk í sýningunni. 

Mætti við meiri ógn

Skólastjórinn Karitas Mínherfa er í höndum Björgvins Franz Gíslasonar. Það er hluti af barnaleikhúshefðinni í Bretlandi að stórir og groddalegir kvenkarakterar séu leiknir af karlmanni og mér skilst að þessi persóna sverji sig í þá ætt. Gervið sem gert er af Margréti Benediktsdóttur er gott og undirstrikar stærð og ógnvænleika persónunnar í augum barnanna. Björgvin Franz er frábær leikari með mikla breidd og Karitas er mjög fyndin í hans meðförum en ég hefði viljað sjá hana aðeins óhugnalegri enda persónan í bókinni mjög skelfileg sem er nauðsynlegt til að hún kalli fram fulla krafta Matthildar.

Mynd með færslu
 Mynd:

Kannski er það listrænt mat leikstjórans að skólastýran megi ekki hræða líftóruna úr yngri leikhúsgestum en það hefði mátt fara aðeins nær hinu skelfilega að mínu mati. Talandi um yngri leikhúsgesti þá hefst sýningin klukkan sjö og lýkur um klukkan tíu sem læðist vel fram yfir háttatíma hjá mörgum börnum fram eftir aldri. Vissulega höfðar stórsýning eins og Matthildur til allra aldurshópa og alls ekki nauðsynlegt fyrir fullorðna að hafa börn meðferðis til að skemmta sér hið besta en yngstu áhorfendurnir voru margir hverjir orðnir ansi lúnir þegar sýningu lauk. Það væri því íhugandi fyrir leikhúsið að setja nokkrar dagsýningar á dagskrá. 

Voldug sviðsmynd og grípandi eyrnalím

Umgjörðin er feiknarlega fín og vel unnin. Sviðsmynd Ilmar Stefánsdóttur er stór og voldug og nýtir sviðið til hins ítrasta. Hún samanstendur af bókahillum í ýmsum útfærslum og samspili bóka og skjáa og er heimur út af fyrir sig. Búningar Maríu Ólafsdóttur undirstrika persónurnar og hjálpa þeim að blómstra. Lýsing Þórðar Orra Péturssonar er í takt við það sem gerist á sviðinu og undirstrikar vel það drungalega andrúmsloft sem ríkir í skólanum. Í svona stórsýningum tíðkast að sýna sem flest af því sem leikhúsið hefur upp á að bjóða og eru sviðsbrellur þar oft framarlega. Brellurnar takast oftast vel þótt mér finnist persónulega að í sýningu af þessari stærðargráðu eigi að leita annarra leiða en að myrkva sviðið til að framkvæma brellur þótt auðvitað sé hægt að réttlæta að stytta þann tíma þegar barni er sveiflað á hárinu eins og hægt er. 

Tónlistin er vel samin og inniheldur hið ágætasta heilalím. Ég hafði aldrei heyrt eitt einasta lag úr Matthildi þegar ég fór á sýninguna en stend mig nú að því að raula upphafslagið og óþekktarlagið í tíma og ótíma. Hljómsveitin, undir stjórn Agnars Más Magnússonar, er þétt og skilar sínu með mikilli prýði. 

Bergur Þór Ingólfsson hefur sýnt það oft áður hve vel honum lætur að leikstýra börnum og slá um leið einlæga tóna sem gætu sem best farið forgörðum í stórsýningu sem þessari þar sem auðvelt er að leggja meiri áherslu á skrautið en innihaldið. Og innihaldið í Matthildi er svo sannarlega þess virði að á það sé hlýtt. 

Dansar sem henta alls konar líkömum

Danshöfundurinn Lee Proud er orðinn nánast fasti í íslensku leikhúslífi en hann hefur séð um dans og sviðshreyfingar í Rocky Horrror, Mary Poppins, Billy Elliott og Kabarett hér á landi svo dæmi séu tekin auk þess að vera starfandi danshöfundur um allan heim. Lee hefur þann stórkostlega eiginleika að semja dansa sem eru erfiðir og krefjandi og það sést á þeim en um leið henta dansarnir alls konar líkömum með fjölbreytta hreyfigetu. 

Þýðing Gísla Rúnars Jónssonar er hnyttin og alveg passlega mikið staðfærð þar sem verkið gerist augljóslega ekki á Íslandi. Það mætti gjarnan mín vegna leiðrétta málvillu í því sem skrifað er á töfluna í seinni hluta (að ná sér „niðri“ á einhverjum í stað þess að ná sér „niður“ á einhverjum) en annars bæði talast þýðingin og syngst vel. 

Í heildina er Matthildur glæsileg sýning sem stendur sambærilegum sýningum um allan heim fyllilega á sporði. Og munum öll: Stundum er bráðnauðsynlegt að vera óþekk!