Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Heilinn hans Arnars Úlfs

Mynd:  / 

Heilinn hans Arnars Úlfs

01.09.2018 - 11:00

Höfundar

Hasarlífsstíll er fyrsta sólóplata Arnars Úlfs, sem hefur gert garðinn frægan sem annar helmingur hip hop dúettsins Úlfur Úlfur. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Það er óþarfi að vera með langan og litríkan inngang um hina yfirstandandi rappbylgju í þessum tiltekna dómi, hann hef ég nú skrifað nokkrum sinnum með viðeigandi tilbrigðum. Fyrir fimm árum var íslenskt hipphopp varla til en í dag er það staðreynd (svo ég vísi kerknislega í Ham). Hipphoppið á Íslandi er, eins og staðan er nákvæmlega núna, yfir um og allt í kring, plötur og lög koma út reglubundið, ýmist frá reyndum listamönnum eða nýliðum. Líkt og þróunin er úti þá hafa góðir gestir standsett sig sem listamenn í eigin rétti (Flóni, Birnir) og vel líst mér líka á afleiddu r og b stefnuna (GDRN, Bríet). Allt að gerast semsagt. Og við getum hæglega speglað þetta í pönkinu á sínum tíma. Ungt fólk, oft með hugmyndir og ástríðu umfram eiginlega getu, dælir út efni sem er eðlilega misgott. En enginn skyldi neita kraftinum sem í þessari senu er, akkúrat núna.

Máttarstólpur

Hér höfum við t.d. plötu frá einum af máttarstólpum senunnar en Arnar Úlfur er listamannsnafn Arnars Freys Frostasonar úr Úlfur Úlfur, sem hefur verið ein af forvígissveitum íslenska hipphoppsins undanfarin misseri. Þetta er fyrsta sólóplata hans, og nokk eðlilegt skref þegar maður hugsar um það. Arnar er með stjörnueiginleikana, hann er með sinn stíl og með getu til að bera svona verk sem hann og gerir. Platan byrjar af krafti, nær harkalega, og rennslið er til muna straumlínulagaðra og snarpara en hjá Úlfi Úlfi, sem gerðu m.a. út á hálfgert gáfumannarapp, með hlöðnum, pældum textum og tónlist eftir því.

Titillag þessarar plötu er hins vegar hálfgert harðkjarnarapp og Arnar er léttari á fæti (í orði?), leyfir sér grín og gáska („Ekki tala við mig, sérð að ég er í símanum, annað hvort að loka dílum eða tala við mömmu“). Arnar er flinkur með orðin, og dregur einatt upp lýsingar og líkingar sem fá mann til að staldra við („Tímabært að vakna, fæ mér kaffi og sertral“. Frábær lína). Platan tikkar áfram kröftuglega fyrstu þrjú lögin eða svo, en í „Heilinn minn“ er aðeins hægt á og Arnar ræðir um samlíf hans og unnustunnar, Sölku Sólar, sem kemur síðan inn sem gestur í næsta lagi, „Falafel“, besta lagi plötunnar. Forritunin og taktsmíðin (pottþétt út í gegn) er strípuð í því lagi og það er í nokkurs konar trapptakti. Rappið sjálft fylgir þeirri línu líka en svo kemur Salka inn og brýtur flæðið upp, „rocksteady“ áhrif gera vart við sig og meiri melódía að hætti AmabAdamA. Snilldarsamkvæmisdans hjá þeim hjónakornum. Restin af plötunni heldur ekki alveg í við þessa uppbyggingu og platan rennur dálítið út í sandinn undir lokin verður að viðurkennast.

Þegar allt er saman tekið, er þetta firnasterkur frumburður, og þrátt fyrir að stök lög í bláendanum rísi ekki alveg upp í fyrri helming verksins, er sterkur og sannfærandi andi yfir sólólistamanninum Arnari.  Ég er sáttur nafni, og gott betur.

Tengdar fréttir

Tónlist

Umvafinn Ólafi Arnalds

Tónlist

Teitur nennir alltaf að dreyma

Tónlist

Mjúkt og poppað rapp

Popptónlist

Kæruleysislega svalt