Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Heildarlífeyrisiðgjöld upp í 21% um áramót

07.10.2016 - 16:21
Mynd: RUV / RUV
Ef frumvarp um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna verður ekki að lögum fyrir áramót hækka heildariðgjöld í tæplega 21% hjá Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga og í 19% hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ljóst er nú, þegar nokkrir dagar eru til þingloka, að frumvarp um sjóðina verður ekki afgreitt á þessu þingi.

Fyrir rúmum þremur vikum var samkomulag undirritað um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna milli ríkisins og sveitarfélaga annars vegar og BSRB, Kennarasambandsins og BHM hins vegar. Markmiðið með því er að jafna kjör á opinberum og almennum vinnumarkaði. Fyrsta skrefið er að jafna lífeyriskjörin. Á almenna markaðinum er búið að ákveða að hækka iðgjöld til samræmis við réttindi opinberra starfsmanna eða upp í 15,5 % og í samkomulaginu var stigið það skref að hækka lífeyrisaldur opinbera starfsmanna úr 65 árum í 67 ár. Samkomulagið sem undirritað var 19. september er líka liður í því að þokast í átt að því að hér verði tekið upp nýtt vinnumarkaðslíkan. Forsenda þess að koma slíku líkani í gagnið var m.a. að jafna lífeyrisréttindin.
 

Frumvarpið ekki afgreitt

Blekið var þó varla þornað á undirskriftunum þegar nokkur félög innan BRSB stigu fram og höfðu ýmislegt við frumvarpið að athuga. Þau treysta ekki loforði ríkisins um að kjör verði jöfnuð og gera ýmsar aðrar athugasemdir. Sprengju var hins vegar varpað þegar Kennarasambandið sagðist ekki geta stutt frumvarpið vegna þess að texti þess væri ekki í samræmi við það samkomulag sem var undirritað. Í kjölfarið lýstu bæði BSRB og BHM því yfir að þau væru sama sinnis. Ríki og sveitarfélög leggja samtals til 120 milljarða króna til að í raun að rétta við sjóðina sem reknir eru með halla og til að tryggja að sjóðfélagar beri ekki skarðan hlut frá borði miðað við réttindi nú og og eftir breytinguna. Ávinnsla í opinberu sjóðina er jöfn eða 1,9% á ári en samkvæmt frumvarpinu átti að breyta henni í aldurstengda ávinnslu eins og tíðkast á almenna markaðinum.  Samkomulagið tryggir þeim sem greiða í sjóðinn áfram sömu lífeyrisréttindi og þeir hefðu fengið í núverandi kerfi. Gagnrýni samtakanna gengur út á það að einungis sé talað um virka greiðendur í sjóðinn í frumvarpinu en ekki um þá sem einhvern tíma hafa greitt og þá sem þegar fá greitt  úr sjóðunum. Ágreiningur er kominn upp um hvernig túlka beri samkomulagið. Vegna hans er ekki talið líklegt að frumvarpið nái að verða að lögum á þessu þingi og er meðal þeirra mála sem slegið hefur verið á frest.

Heildariðgjöldin upp í tæp 21% 

Afleiðingarnar eru þær að nokkur óvissa ríkir um vinnuna við nýtt samningslíkan. Annað er að samkvæmt lögum ákváð Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga 30. september að hækka mótframlag sveitarfélaganna um 4,8% eða úr 12% í 16,8 prósent og LSR Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna um 4% eða í 15,1%. Þetta var nauðsynlegt vegna þess að skuldbindingar sjóðsins eru talsvert umfram eignir. Ef frumvarpið hefði verið samþykkt hefðu þessar hækkanir ekki komist í gagnið vegna framlaga frá ríki og sveitarfélögum. Og ef frumvarpið verður ekki lagt aftur fram fyrir áramót verða ríki og sveitarfélög að reiða fram hærri mótframlög. Hjá sveitarfélögunum verða heildariðgjöld 20,8% og ríkinu 19,1%. Það veldur því meðal annars að jöfnun lífeyrisréttinda er fokin út í veður og vind miðað við á almenna markaðinum. Hvað verður ræðst af því hvað ný ríkisstjórn gerir í haust því ekki er talið að þessir milljarðar liggi á lausu á næsta ári eða á nýju fjárlagaári.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV