Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Heildarlaunin hækka um meira en lágmarkslaun

27.06.2017 - 12:37
Mynd með færslu
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi. Mynd: RÚV
Heildarmánaðarlaun ríkisendurskoðanda hækka um sem nemur rúmlega lágmarkslaunum í landinu, samkvæmt úrskurði kjararáðs. Heildarlaun hans hækka um hátt í 300 þúsund krónur á mánuði, og laun ferðamálastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins um hátt í 200 þúsund krónur. Þau eiga öll von á milljóna króna leiðréttingu aftur í tímann. Formaður BSRB segist treysta því að opinberir starfsmenn fái líka afturvirkar leiðréttingar í næstu kjarasamningum.

Kjararáð hækkaði í síðustu viku laun nokkurra sem heyra undir ráðið. Ekki er tekið fram í ákvörðunum kjararáðs hver launin voru fyrir hækkun og því getur verið flókið að reikna hækkunina. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, birti í gær sína útreikninga, en þeir voru byggðir á röngum forsendum og gáfu ýkta mynd af hækkununum. Samkvæmt útreikningum fréttastofu, sem eru byggðir á úrskurðum kjararáðs og voru bornir undir kjararáð, nema hækkanirnar frá tæplega 3% og allt upp í 20%.

Heildarlaun forstjóra Fjármálaeftirlitsins, með einingum fyrir yfirvinnu og álag, hækka um tæplega 160 þúsund krónur á mánuði, eða 9,8%, og verða tæplega 1,8 milljónir króna.

Heildarlaun framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar ehf. hækka um tæplega 108 þúsund krónur á mánuði, eða 9,7%, og verða rúmlega 1,2 milljónir.

Heildarlaun ferðamálastjóra hækka um rúmlega 184 þúsund krónur á mánuði, eða 17,9%, og verða rúmlega 1,2 milljónir.

Mánaðarlaun ríkisendurskoðanda hækka mest, í heild um tæplega 287 þúsund krónur, eða 20%, og verða rúmlega 1,7 milljónir króna. Krónutöluhækkun á heildarlaunum ríkisendurskoðanda er meiri en lágmarkslaun í landinu, sem eru 280 þúsund krónur á mánuði.

Hagstofustjóri fær launahækkun upp á tæplega 147 þúsund krónur á mánuði, eða 11,1%, og verða heildarlaun hans tæplega ein og hálf milljón króna.

Laun forsetaritara hækka um tæplega 143 þúsund krónur, eða 12%, og verða rúmlega 1,3 milljónir á mánuði.

Mánaðarlaun varaforseta Hæstaréttar hækka um tæplega 48 þúsund krónur, eða 2,6%, og verða tæplega 1,9 milljónir króna.

Sendiherrar fá rúmlega 152 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum, eða 18,2%, og verða þau rétt tæplega ein milljón króna. Í tilfelli þeirra er hér aðeins miðað við grunnlaun, enda misjafnt hvort og þá hversu margar yfirvinnu- og álagseiningar sendiherrar fá greiddar.

Allar þessar hækkanir eru afturvirkar, styst hjá hagstofustjóra aftur til 1. október í fyrra, en lengst hjá forstjóra FME, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar og varaforseta Hæstaréttar, allt aftur til 1. janúar í fyrra. Sumir eiga því von á milljóna króna leiðréttingu.

„Það sem skiptir kannski mestu máli er að þetta er enn svona leyndarhyggja yfir því hvernig þessar ákvarðanir eru teknar,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. Hún kallar eftir skýrari rökstuðningi í ákvörðunum kjararáðs.

„Og síðan auðvitað stingur líka mjög í augu þessi mikla afturvirkni við þessa ákvörðun.“ Elín Björg segir venjulega býsna flókið fyrir stéttarfélög að fá afturvirka kjarasamninga, en kjararáð hafi ákveðið að gera laun afturvirk allt upp í eitt og hálft ár. „Og við auðvitað trúum því og treystum að við gerð næstu kjarasamninga verði okkar viðsemjendur liprir við það að fara í launaleiðréttingar, sem sannarlega er kominn tími til, en líka þá að þær leiðréttingar verði afturvirkar.“

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV