Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Heilbrigðisnefnd harmar mengunarslys

30.05.2013 - 16:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekki er hægt að fullyrða með vissu hver endanlegur árangur verður af hreinsunarstarfinu í Bláfjöllum, þar sem mengunarslys varð þann 8.maí. Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu Heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar og Kópavops um slysið. Rannsóknarnefnd flugslysa hefur málið til rannsóknar.

Mengunarslysið varð þegar verið var að flytja tank með 600 lítra af díselolíu með þyrlu á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Þríhnúka ehf . Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar og Kópavogs harmaði slysið á fundi sínum í vikunni og í samþykkt nefndarinnar kemur meðal annars fram að mikil mildi var að ekki hefðu orðið slys á fólki og að með samstilltum aðgerðum hafi tekist að lágmarka hugsanlegt tjón.

Í ítarlegri skýrslu, sem nefndin hefur látið taka saman, kemur meðal annars fram að rannsóknarnefnd flugslysa hafi málið til rannsóknar þar sem líkur eru á að orsakanna sé að leita í tæknibilun í þyrlu eða óhappi við stjórn hennar.  Þá segir einnig að hugsanlegt sé að allt að fimmtíu til hundrað lítrar af olíu hafi runnið í jörð eða gufað upp en að frekari efnistaka eða jarðrask yrði síst til bóta. Því verði að teljast eðlilegt að vöktun á neysluvatni verði aukin fyrst um sinn.

Þá kemur ennfremur fram að ákveðnir hnökrar, misalvarlegir, hafi komið í ljós við framkvæmd reglna þegar rýnt var í þetta umrædda mengunarslys. „Hnökrar sem á engan hátt stuðluðu að tilurð slyssins en sem samt er fyllsta ástæða til að læra af.“