Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Heilbrigðiskerfið þoli ekki uppsagnir

15.06.2015 - 08:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, segir mikla reiði og vonbrigði vera meðal hjúkrunarfræðinga vegna lagasetningar á verkfall þeirra. Hún segir ólíklegt að fólk eigi eftir að taka á sig yfirvinnu til að vinna á uppsöfnuðum verkefnum.

Á annan tug hjúkrunarfræðinga hið minnsta hefur sagt upp störfum frá því lög voru sett á verkfallsaðgerðir þeirra og félagsmanna BHM í liðinni viku. Að minnsta kosti ellefu af um það bil 20 hjúkrunarfræðingum á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans ætla að segja upp störfum í dag. Morgunblaðið greinir frá því að sex hjúkrunarfræðingar á gjörgæsludeild landsspítalns, eða heil dagvakt, hafi sagt upp.

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, segist ekki hafa tölu á heildarfjölda uppsagna. „Það voru farnar að koma inn uppsagnir fyrir helgi, en ég geri ráð fyrir að það skýrist í dag og næstu daga.“

Sigríður segir að lagasetningin hafi valdið miklum vonbrigðum. Áhersla hafi verið lögð á sátt því það hafi þótt ljóst að annars stefndi í uppsagnir. „Og það er bara eitthvað sem íslenskt heilbrigðiskerfi þolir ekki.“

Sigríður segir að blendnar tilfinningar séu í hópi hjúkrunarfræðinga. „En mikil reiði og vonbrigði með að þetta skyldu vera málalok.“

Sigríður segir afar ólíklegt að hjúkrunarfræðingar séu tilbúnir til að taka á sig yfirvinnu umfram sína vinnuskyldu. „Og það er það sem við þurfum að treysta á bæði til að reka starfsemina í sumar og eins er alveg ljóst að það verður ekki unnið á þessum uppsafnaða vanda nema að  allir leggist á eitt og við þurfum á öllu okkar starfsfólki að halda og það verður að treysta á fólk til þess. Og ég sé það ekki gerast við þessar aðstæður.“

Frestur hefur verið gefinn til 1. júlí til að ná samningum. „Ég tel, miðað við það sem maður heyrir af þessum samningaviðræðum, að það þurfi nú eitthvað nýtt verði að koma til eða nýtt inn í umræðuna til að það náist. Það er algjörlega nauðsynlegt að gera það og ljúka þessu máli þannig að sátt verði.“