Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Heilabilaðir bíða í tvö ár eftir dagvistun

07.05.2018 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bið fyrir fólk með heilabilun, eftir að komast í dagþjálfun er oft svo löng, að fólk er orðið of veikt þegar röðin kemur að því, og þá lendir það á öðrum biðlista, eftir hjúkrunarrými. Þetta segir Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir á Landspítala sem segir enga stefnu hafa verið mótaða hér um málefnið. 

Steinunn skrifar greinina „Alzheimer-sjúkdómur faraldur 21. aldarinnar“ í nýjasta hefti Læknablaðsins.

„Það eru 200 manns á bið núna eftir þessu úrræði. Þegar fólk er komið á bið á annað borð þá er það komið í brýna þörf,“ segir hún.

En ef maður er á biðlista í tvö ár með Alzheimer að þá kannski er kannski ekki hægt að fara þegar maður kemst loksins að?

„Nei og ég hef lent í því að fólk getur ekki nýtt sér þetta úrræði heldur fer beint inn á hjúkrunarheimili. Og þá er oft undangenginn mjög langur og erfiður tími heima.“

En svo kemst það nú ekki strax á hjúrkrunarheimili er það?

„Svo er það önnur bið. Ég hef líka séð það oft gerast að fólk þarf þá að byrja að bíða upp á nýtt. Búið kannski að bíða í ár, tvö, eftir dagþjálfun, þarf svo að byrja að bíða upp á nýtt eftir hjúkrunarheimilinu. Það getur verið ár í viðbót. Þannig að við erum að tala um mörg ár í miklum erfiðleikum fyrir aðstandendur og sjúklinginn.“ 

Um 60 til 70% þeirra sem fá heilabilun eru með Alzheimer og við honum er engin lækning. Helsti áhættuþáttur er hækkandi aldur og sífellt fjölgar í elstu aldurshópunum.

„Í framtíðinni erum við kannski að sjá fram á tvöföldun í þessum sjúklingahópi á næstu 20 árum.“

Steinunn segir sérstakt að engar tölur séu til um fjölda fólks með heilabilun hér í ljósi þess að svo miklum fjármunum sé varið í málaflokkinn. Það verða að vita umfangið til þess að gera áætlanir um þörfina.  

„Það er að minnsta kosti okkar tilfinning sem vinnum í þessum geira að þetta sé svona í kringum 5000 manns, sirka.“

Og það vantar stefnu í þetta?

„Það vantar stefnu og það er mjög brýnt því að maður finnur mjög mikið fyrir því að úrræðin eru að þrjóta.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV