
Heil vakt hjúkrunarfræðinga segir upp
Greint var frá því í fréttum RÚV í gær að ellefu hið minnsta af um það bil 20 hjúkrunarfræðingum á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans ætli að segja upp störfum í dag. Allt stefnir því í að fjöldi hjúkrunarfræðinga hætti eftir að lög voru sett á verkfall þeirra á laugardag.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lýsti í gær yfir vonbrigðum með ákvörðun Alþingis um að setja lög á verkfall þeirra. Virtur væri að vettugi lýðræðislegur og sjálfsagður samningsréttur þeirra í löglegri baráttu, sagði í yfirlýsingu frá félaginu. Lögin séu frestun á viðvarandi vandamáli en ekki sú lausn til frambúðar sem hjúkrunarfræðingar leituðu eftir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, sagði í fréttum RÚV í gær að lagasetning á verkföll væri niðurlægjandi. Hún vísaði því á bug að lögin hafi verið nauðsynleg til að afstýra neyðarástandi og tekur ekki undir að áhyggjur af öryggi sjúklinga réttlæti lög á verkföllin. Sú vá hafi ekki verið fyrir dyrum. Undanþágunefndir hafi komið í veg fyrir að neyð skapaðist.
„Það er þungt hljóð í félagsmönnum BHM. Þetta eru þung skref og fólk er reitt. Það hefur reynt mjög á langlundargeð þess og lagasetning sem þessi er niðurlægjandi og það er aldrei gott í samskiptum að niðurlægja fólk,“ sagði Þórunn í kvöldfréttum í gær.