Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Heiðraður fyrir ævistarf sitt í tónlist

Heiðraður fyrir ævistarf sitt í tónlist

17.06.2017 - 08:00

Höfundar

Tenórsöngvarinn Garðar Cortes var sæmdur heiðursverðlaunum Grímunnar 16. júní 2017 fyrir ævistarf sitt. Hann hefur komið víða við í tónlistarlífi Íslendinga og haft mikil áhrif m.a. með stofnun Söngskólans í Reykjavík árið 1973 og hefur verið skólastjóri hans frá upphafi. Hann stofnaði Íslensku óperuna ásamt góðu fólki árið 1979 og var óperustjóri fyrstu tvo áratugina.

Garðar Cortes hefur starfað sem óperusöngvari, kennari, kórstjóri og hljómsveitarstjóri og komið fram sem slíkur, innan lands og utan.

Hann lauk einsöngvara - og söngkennaraprófi frá The Royal Academy of Music árið 1968 og Watford School of Music í Englandi árið 1969. Að námi loknu sótti hann söngtíma hjá Linu Pagliughi á Ítalíu, Helene Karusso og Erik Werba í Vínarborg.

Garðar hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir frumkvæði sitt og störf að tónlistamálum, svo sem fyrstu Bjartsýnisverðlaun Bröste fyrir stofnun Íslensku óperunnar. Þá hefur hann verið sæmdur hinni íslensku fálkaorðu og hlotið Menningarverðlaun Visa.

Í sérstökum þætti sem helgaður er Garðari á þessum timamótum er rætt við nána samstarfsmenn hans í áratugi, sönkonurnar Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Ásrúnu Davíðsdóttur, son Garðars og nafna, Garðar Thór Cortes og Gunnar Guðbjörnssonar, tenórsöngvara og skólastjóra Söngskóla Sigurðar Demetz Franzsonar. Þá eru leikin brot úr viðtali við Garðar úr þætti Árna Þórarinssonar og Ingólfs Margeirssonar, Þriðji maðurinn auk þess sem er er rætt við hann sjálfan.

Umsjón: Ingveldur G. Ólafsdóttir.