Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Heiðagæsastofninn í sögulegu hámarki

21.08.2017 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia - RÚV
Heiðagæsastofninn er í sögulegu hámarki og telur rúma hálfa milljón fugla. Fuglafræðingur segir bæði heiðargæs og grágæs standa vel að vígi hér, þó að um þriðjungur grágæsastofnsins sé veiddur á hverju ári. Gæsaveiðitímabilið hófst í gær.

Töluvert af gæs í ár

20. ágúst eru skotveiðar á grágæs og heiðagæs heimilar og stendur tímabilið til 15. mars. Báðir stofnar standa vel, en fjöldi heiðagæsa hefur margfaldast hér á landi síðustu áratugi.

Arnór Þórir Sigfússon, fuglafræðingur hjá Verkís, hefur rannsakað gæsir á Íslandi í yfir 20 ár og segir hann að töluvert sé af gæs í ár, sérstaklega heiðagæs.  

„Heiðargæsarstofninn er í sögulegu hámarki núna. Hefur vaxið mjög undanfarin ár og árið 2015 fór hann yfir hálfa milljón, sem er mjög mikið,” segir hann.

Þriðjungur grágæsa veiddur

Heiðagæsir voru fyrst taldar um 1950 og taldi stofninn þá um 33.000 fugla. Um 1990 var stofninn um 230.000 fuglar og tók svo kipp upp úr aldamótum. Um 15.000 heiðagæsir eru veiddar hér á veiðitímabilinu. Grágæsastofninn telur hins vegar um 140.000 fugla hér fyrir veiði, og mun fleiri fuglar eru veiddir, um 40.000, sem gerir um þriðjung af stofninum. Arnór segir að stofninn standi þó vel, þar sem þær eignist marga unga. 

„Við sjáum að það verður breyting um aldamótin, ungaframleiðslan hækkar að meðaltali. Og með þessari miklu ungaframleiðslu þá stendur hún undir þessari veiði,” segir Arnór.

Margir að endurnýja kortin á síðustu stundu 

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun var fjöldi manns að endurnýja veiðikortin á síðustu metrunum fyrir helgi og greinilegur áhugi er fyrir gæsaveiðinni. Stofnunin minnir veiðimenn sérstaklega á að óheimilt er að skjóta ófleyga fugla og fugla í sárum. Þá er einnig sérstaklega minnt á alfriðun blesgæsarinnar. Andaveiðitímabilið hefst 1. september, en veiðar á helsingja í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum eru heimilar frá 25. september, þar sem þeir byrjuðu fyrst að verpa þar um 1990.   

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV