Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Heiða Kristín tekur sæti Bjartar á þingi

22.08.2015 - 10:51
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa - RÚV
Heiða Kristín Helgadóttir, annar af stofnendum Bjartrar framtíðar, hefur ákveðið að taka sæti Bjartar Ólafsdóttur þegar hún fer í fæðingarorlof. Hún hafði lýst því yfir að hún gæti ekki tekið sæti Bjartar á meðan Guðmundur Steingrímsson væri formaður flokksins.

Guðmundur lýsti því yfir í Fréttablaðinu í morgun að hann hygðist ekki bjóða sig fram sem formaður flokksins aftur. Þá myndi Róbert Marshall sömuleiðis hætta sem þingflokksformaður flokksins.

Heiða segist vera ánægð með þessa ákvörðun og telur Guðmund og Róbert vera menn að meiri. „Ég er bara ánægð með að þeir hafi tekið það til sín sem hefur verið rætt í flokknum og mér finnst þeir bara menn að meiri að taka ábyrgð á stöðunni eins og hún er. Og það er í sjálfu sér það sem ég var að fara fram á og að það færu fram heiðarlegar umræður um hvert við stefndum.“

Heiða Kristín segir þetta verði til þess að hún ætli að taka sæti Bjartar Ólafsdóttur þegar hún fer í fæðingarorlof. Hún segist ætla að verða borgarþingmaður og halda á lofti borgarsjónarmiðum sem henni finnst skipta mestu máli fyrir framtíðina.

Hún kveðst þó ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hún bjóði sig fram til formanns - það sé eitthvað sem verði hugsað stíft um næstu daga. „Ég hef ekki tekið endanlega ákvörðun um það. Ég hef líka hvatt konur í flokknum til að stíga fram að taka forystu og myndi fagna því. Mér fyndist það líka heilbrigt ef það yrðu nokkur framboð.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV