Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hegðunarvandi getur verið merki um kvíða

18.01.2018 - 09:41
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Margir foreldrar spyrja sig eflaust að því hvort hegðunarvandi barna sinna sé ekki bara frekja. Rannsóknir benda þó til þess að einkenni kvíða séu oft misskilin sem mótþrói og frekja barna.

„Börn hafa mjög takmarkaðan þroska til að tjá tilfinningar sínar, sérstaklega hvað varðar orðaforða og annað. Geta þeirra til að bera kennsl á tilfinningar sínar og útskýra þær með orðum er mjög takmörkuð. Þannig að vanlíðan brýst gjarna svona fram. Það þarf ekki endilega að vera kvíði en geta verið alls konar hlutir,“ segir Urður Njarðvík, dósent við sálfræðideild Háskóla Íslands. Rætt var við hana í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Hún segir gott fyrir foreldra að velta því fyrir sér hvað liggi að baki slíkri hegðun hjá börnum og kanna hvort hægt sé að finna mynstur. „Ef barnið er mjög ófyrirsjáanlegt og sýnir miklar sveiflur þá getur það verið merki um kvíða þó það sé ekki alveg augljóst að það sé bara í einum aðstæðum. Oftast er hægt að finna einhvern þráð,“ segir hún.

En hvernig geta foreldrar vitað hvort hegðun er vegna kvíða eða ekki? „Með því að fylgjast með, rannsaka málin og vera svolitlir vísindamenn á sínu heimili. Það er gott að skrá niður hjá sér við hvaða aðstæður þetta er og þá kemur mynstur í ljós.“

Það er margt sem foreldrar geta gert til að lágmarka kvíða hjá börnum. Til dæmis ef barnið vill ekki prufa nýjar aðstæður er gott að undirbúa það vel og hvetja áfram. Besta leiðin sé að brjóta leiðina niður í skref, þannig að barnið barnið upplifi ekki að verkefnið sé óyfirstíganlegt. Kvíði er náttúrulegur hluti af lífinu, að sögn Urðar. „Við sýnum öll kvíða og ótta og þurfum að gera það til að lifa af,“ segir hún. Börn séu alltaf að læra nýja hluti og sýni þá gjarna ótta. Það sé hluti af því að vera barn að vera hrædd. Ung börn séu oft hrædd við aðskilnað frá foreldrum og mótmæli honum kröftuglega. Seinna fari þau oft að verða hrædd við myrkur og dýr. „Svo þegar kemur inn á unglingsárin fer þetta að verða meira félagslegt. Það sem við horfum á frekar er að ef kvíðinn er farinn að trufla barnið og er orðinn hamlandi og kemur í veg fyrir að lífið gagni sinn gang þá er þetta orðið vandamál. Það getur komið mjög snemma, jafnvel á leikskóla.“

Urður fjallar um samspil kvíða og hegðunarvanda í fyrirlestri í Hátíðarsal Háskóla Íslands í dag á milli klukkan 12 og 13.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir