Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Hefur viðgengist allt of lengi“

12.01.2018 - 12:19
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. - Mynd: RÚV / RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, segir mikilvægt að brugðist sé við frásögnum íþróttakvenna af kynferðisofbeldi, og að konur og stúlkur finni að þær geti stigið fram ef brotið er á þeim. Hún hafi sjálf upplifað slíka áreitni á eigin skinni.

Íþróttakonur sendu frá sér yfirlýsingu í gær, ásamt 62 frásögnum af kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun. Athygli vakti að margar frásagnir voru af grófu kynferðisofbeldi og nauðgunum. Þá virðast þjálfarar sem gerast sekir um ósæmilegt athæfi fara á milli félaga án vandkvæða. Meðal þeirra sem segja sögu sína er Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu. Hún greinir frá stöðugri áreitni af hálfu þjálfara síns hjá atvinnumannaliði í Noregi, sem varð að lokum til þess að hún neitaði að spila undir hans stjórn. Saga Hólmfríðar birtist fyrst nafnlaus en mbl.is fékk síðar leyfi til að nafngreina hana. Hún hefur ekki viljað tjá sig frekar um málið.

Segir frásagnir íþróttakvenna ekki koma á óvart

Norska blaðið VG hefur eftir formanni norska liðsins Avaldsnes, sem Hólmfríður lék með, að samið hefði verið um það við þjálfarann að stjórn félagsins myndi ekki tjá sig um hegðun hans við framtíðarvinnuveitendur. 
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi mennta- og menningamálaráðherra, hefur lengi verið virk innan íþróttahreyfingarinnar. Hún segir að þó að frásagnir íþróttakvenna komi henni ekki á óvart hafi þær verið erfiðar aflestrar. „Þetta er eitthvað sem hefur viðgengist allt of lengi innan íþróttahreyfingarinnar. Þetta er eitthvað sem við höfum vitað af og allt of fáir hafa gert eitthvað í,“ segir Þorgerður, og veltir fyrir sér hvort þetta hafi þau áhrif að konur endist skemur í íþróttum en ella.

Vill nýta umræðuna til góðs

„Það sem kemur mér á óvart eru þessi alvarlegu brot því að þetta eru í rauninni bara bein brot á almennum hegningarlögum. Kynferðisleg áreitni og ofbeldi gagnvart konur, og líka drengjum, hefur átt sér stað innan íþróttahreyfingarinnar eins og svo víða og við erum að upplifa víða innan listaheimsins, innan vísindaheimsins og víðar. Það er það sem að við eigum að faðma, það er þessi umræða og við eigum að nýta hana okkur til góðs og þess vegna er mikilvægt að skynja þessi fyrstu viðbrögð íþróttahreyfingarinnar, að þau taka málið mjög alvarlega og ætla að setja það í ákveðinn farveg,“ segir Þorgerður Katrín.   

Á ekki að líðast lengur

Hún segir mikilvægt að brugðist sé við af festu. „Við þurfum að hafa reglurnar þannig og kerfið þannig að konurnar okkar í íþróttum hafi ekki það á tilfinningunni að þær séu einar og þær verða að koma fyrr fram með þetta þannig að hægt sé að hjálpa þeim. En þetta hefur viðgengist og þetta á ekki að líðast lengur.“

Kannast þú við þetta á eigin skinni? „Já.“