Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hefur verið dugleg að liggja á hleri

Mynd: Jonny I Davies / Jonny I Davies

Hefur verið dugleg að liggja á hleri

13.06.2018 - 13:38

Höfundar

Hin 27 ára Sally Rooney er rísandi stjarna á rithöfundahimninum, en frumraun hennar Conversation With Friends hefur verið ausin lofi síðan hún kom út fyrir rúmu ári. Nú er hún komin út á íslensku og ber titilinn Okkar á milli, en það er Bjarni Jónsson sem þýddi verkið.

„Ég veit ekki hvort að ég sé rétti maðurinn til að svara þessu,“ segir Bjarni þegar hann er inntur að því hver sögumaðurinn, Frances, eiginlega sé. „Ég er auðvitað alveg kynslóð á undan þessari stúlku, en fyrir mér er hún mjög berskjölduð. Það kannski á við um fleiri persónur bókarinnar, en það er fyrsta orðið sem mér dettur í hug um Frances. Berskjölduð og viðkvæm, en gerir þráfaldlega tilraun til að breiða yfir það. Þar af leiðandi er hún kannski dálítið dæmigerð fyrir manneskju á þessum aldri.“

Bjarni segir það vera undirliggjandi í söguþræðinum hversu erfitt það er að eignast eigin rödd og eigin vitund, en það skíni meðal annars í ljós í persónusköpun sögumannsins, sem er af þeirri kynslóð sem hefur alist upp tengd við Internetið. „Það hefur sjálfsagt verið erfitt á öllum tímum, en mig grunar að það hafi ekki orðið auðveldara.“ Kynslóðin sem hefur alist upp í gegnum netið og samskiptaforrit og er hugsanlega berskjaldaðri gagnvart heiminum og finnur sér hvergi skjól. Hún verður ósjálfrátt - eða gerir sig - að þátttakanda í heimsins hörmungum. „Maðurinn hefur held ég alltaf haft tilfinningu fyrir því að heimurinn sé stór og það séu skelfilegir hlutir að gerast hér og þar, en hann hefur þá haft tækifæri til að skríða í skjól og talið sig bara hólpinn. En það hefur snarbreyst.“

Leitar uppi þjáninguna

Frances og vinir hennar eiga enda djúpar samræður um vandamál hins stóra heims; Sýrland, Palestína, alþjóðagjaldeyrissjóðurinn; pólitík og kynjafræði er meðal þess sem ber á góma, en samtímis kljást þau við dramatík eigin lífs. Þau eru ung og leitandi og eins og Frances, að fóta sig í lífinu. „Svo koma tilfinningarnar, eins og oft vill gerast hjá fólki, maður fer af stað, æðir út í eitthvað, einhver samskipti eða annað og fer fram með viljann að vopni og svo koma tilfinningarnar og slá þig í andlitið, kannski löngu síðar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Dagur Gunnarsosn - Samsett
Bjarni Jónsson þýðir verkið.

Hann segir Frances vera fasta í alls kyns myndum; hún hefur áhyggjur af stöðu heimsins og hún er skáld en veit samt ekki alveg hvað það þýðir. „Hún er líka föst í hugmyndum um það hvernig samskipti eiga að ganga fyrir sig og reynir með afdrifaríkum hætti að komast hjá því að eiga við vandann.“ Hins vegar má líka segja að á einhvern hátt leiti hún uppi þjáninguna – hún vilji þjást.

Þýðingarvinna góð fyrir höfunda

Bjarni segir það vera áskorun fyrir þýðanda að takast á við rödd og reynslubanka sem er ólíkur hans eigin, en að hún sé mikilvæg og gefandi, ekki síst fyrir hann sem höfund. „Auðvitað þarf maður einhvern veginn að lifa sig inn í aðstæður og hafa samúð, eða í það minnsta skilning.“ Þess vegna segir hann að þýðingar séu áhugavert viðfangsefni fyrir hvern höfund. „Maður þarf að setja sig inn í aðstæður sem aðrir hafa búið til og mögulega, eins og í þessu tilfelli, einstaklingur sem er af annarri kynslóð og þá verður maður að treysta á að maður hafi nógu mikið mannlegt innsæi,“ segir Bjarni og bætir við að sér finnist hann alltaf fá meira út úr þýðingarverkefnum, sem höfundur, en það sem hann lagði sjálfur í verkefnið.

„Þetta er náttúrlega ákveðinn vöðvi, þýðingarvöðvinn. Ef maður hefur á annað borð áhuga á að þýða þá vill maður hafa eitthvað í handraðanum og missa ekki úr nokkur ár, því það er alveg ótrúlegt hvað tengslin við tungumálið trosna og það á ekki bara við um tungumálið sem þú ert að þýða úr, heldur líka íslenskan. Maður kemur sér upp einhverri íslensku sem maður býr að, þegar maður þýðir bók, en svo auðvitað breytir bókin íslenskunni og það er galdurinn, eða ávinningurinn sem maður tekur síðan með sér sem höfundur.“

Raddirnar birtast í hrynjandinni

Það er mikilvægt að nálgast rödd sögupersóna í þýðingum, en Bjarni segist gera það í gegnum hrynjandina. „Ég byrja yfirleitt á því að þýða algjörlega hrátt og fer þannig í gegnum alla bókina og á meðan ég er að því þá finn ég stílinn, sem ég fer svo og nota í seinni umferðum til þess að mála yfir allt saman. Mér finnst alltaf spennandi þessi fyrsta, grófa yfirferð, að finna þessar raddir.“

Ísmeygilegur stíll

Bjarni lýsir stíl bókarinnar sem ísmeygilegum, að lesandinn fari í raun allt aðra leið en sögumaðurinn, sem þó vill leiða söguna. Hann segir að þrátt fyrir að sagan sé sögð út frá hennar sjónarhorni þá lifni aðrar persónur ótrúlega mikið við. „Það sýnir kannski best hvað höfundurinn er með mikið innsæi og hefur verið dugleg að liggja á hleri, myndi ég halda,“ segir hann og hlær. Hann tekur dæmi um foreldra Frances, sem koma örsjaldan við sögu. „Það eru fáir drættir, mjög skýrir og þetta fólk lifnar alveg við.“

Ljóst er að höfundurinn treystir lesandanum til þess að draga sjálfur línur á milli punktanna. „Kannski er það bara tímanna tákn, ég held að öll list sé að þokast meira og minna í átt til að áhorfendur fá miklu meira rými til að uppgötva. Það rými sem fólk á skilið, til að fara í eigið persónulegt ferðalag um listaverkið.“

Lesendur sem lokið hafa við bókina geta glaðst yfir því að næsta bók höfundar er væntanleg í september á þessu ári og mun fjalla um venjulegt fólk, eða svo segir titillinn; Normal People.