Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hefur þú efni á láni?

Mynd: Unsplash / Unsplash
Tilhugsunin að eiga fyrir láni hljómar kannski nokkuð undarlega, því maður tekur jú lán þegar maður er blankur, eða á ekki alveg fyrir hlutunum sem mann langar í. Og auðvitað tökum við lán fyrir stærri fjárfestingum til framtíðar eins og fasteignum eða námi.

En áður en þú hækkar heimildina þína til að kaupa þér eitthvað sem þig langar í er mikilvægt að spyrja: Ef þú átt ekki pening núna, munt þú eiga hann þegar kemur að gjalddaga lánsins?  Ertu alveg viss um að þú hafir efni á því að taka lán?

Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Embættis umboðsmanns skuldara fjallar um þetta efni í örfyrirlestri um fjármál, en til embættisins leita einstaklingar sem hafa uppgötvað, en ekki fyrr en seint og um síðir, að þeir áttu ekki fyrir láninu sem þeir tóku.

Svanborg leggur til í fyrirlestri sínum hagnýt skref til að svara sem best þessum spurningum sem hjálpa um leið hverjum og einum að ná betri tökum á grunnatriðum í fjármálunum. 

Örfyrirlesturinn var fluttur á Popup ráðstefnu í Háskólanum í Reykjavík, Fjármál á fimm mínútum, á Alþjóðlegri fjármálalæsisviku og streymt á ruv.is.