Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur sláandi áhrif á vinnumarkað á Íslandi

Mynd:  / 
Forsætisráðherra segir sláandi að sjá hversu mikil áhrif sjálfvirknivæðing hefur á íslenskan vinnumarkað. Miklar líkur eru á að þriðja hvert starf verði óþarft, samkvæmt skýrslu sem starfshópur, sem hún skipaði, kynnti í dag.

Starfshópurinn skilaði þessum niðurstöðum í dag. Markmið hópsins var að rannsaka afleiðingar fjórðu iðnbyltingarinnar fyrir íslenskt samfélag. „Það er í raun og veru sláandi að sjá hvað sjálfvirknivæðingin mun hafa mikil áhrif á íslenskan vinnumarkað ef þessi spá verður að veruleika sem hér var kynnt,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Mikið hefur verið rætt um fjórðu iðnbyltinguna. Í einföldu máli segja að hún sé tækni sem valdi breytingum í samfélaginu. Lilja Dögg Jónsdóttir, ein skýrsluhöfunda, segir að nú þegar séu fjölmörg dæmi um að tækni hafi breytt störfum.  „Þessar starfsstéttir sem kannski mest finna fyrir breytingum núna eru til að mynda störf iðnaðarmanna og svo er oft talað um þjónustu og sölustörf, til dæmis ýmiss konar afgreiðslustörf. Og þetta eru störf sem má kannski sjá fyrir sér að strax og nú þegar, og þá erum við að tala um næstu 5, 10 og 15 ár, munu breytast eða jafnvel hverfa.“

Þarf að styðja betur við menntun og rannsóknir

Forsætisráðherra segir mikilvægt að Íslandi gefi í þegar kemur að nýsköpun og tækni og styðja þurfi betur við menntun og rannsóknir. „Ég held að það sem við munum gera núna muni skipta mjög miklu máli fyrir þær kynslóðir sem verða á miðjum aldri getum við sagt eftir 20-30 ár. Allar ákvarðanir sem við tökum í dag munu hafa áhrif á þær kynslóðir.“

Lilja Dögg segir mikilvægt að samfélagið í heild búi sig undir þessar breytingar. „Þetta má ekki bara vera hlutverk hins opinbera heldur virkilega reynir á fyrirtæki líka að bregðast við. Gott dæmi að velta fyrir sér, ef þú ert með góðan starfsmann en þú veist að starf þess starfsmans gæti horfið á næstu árum. Hvernig má styðja þann starfsmann að sækja sér nýja færni og færa sig yfir á annað svið?“

Þá segir Lilja að ekki megi gleyma því að með breytingum verði einnig til ný störf, jafnvel störf sem erfitt sé að gera sér í hugarlund í dag. „Ég nefni oft sem dæmi, ef ég hefði reynt að útskýra fyrir ömmu minni og afa fyrir 50 árum síðan að í dag gæti ég valið um að verða jógakennari eða forritari, þetta eru störf sem væri erfitt að ímynda sér, en störf sem eru til í dag.“

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV