Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hefur skilning á ákvörðun Japana

26.12.2018 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir ákvörðun Japana ekki snerta Íslendinga á neinn hátt. Hann segir þetta ekki setja fordæmi fyrir Ísland og ekki hafi komið til tals hér á landi að gera slíkt hið sama. Kristján Þór segist ekki hafa skoðun á því hvort úrsögn Japana úr Alþjóðahvalveiðiráðinu sé alvarlegt mál.

„Ég ætla í sjáfu sér ekkert að hafa skoðun á því. Þetta er bara ákvörðun sem að sjálfstæð fullvalda þjóð tekur um aðild sína að alþjóðlegum samtökum og í rauninni ekkert meira um það að segja. Þetta er bara ákvörðun Japana sem að þeir taka á sínum eigin forsendum og útaf fyrir sig hefur maður skilning á þessari ákvörðun þeirra,“ segir Kristján Þór.

Japan mun segja sig úr Alþjóða hvalveiðiráðinu og hefja hvalveiðar í atvinnuskyni í japanskri lögsögu næsta sumar. Talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar staðfesti þetta í fjölmiðlum eystra. Formleg ákvörðun um þetta var tekin á ríkisstjórnarfundi í Japan í morgun. Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði Japani ekki eiga annara kosta völ en að segja sig úr Alþjóða hvalveiðiráðinu efitir að ráðið synjaði umsókn þeirra í september um að fá að taka upp atvinnuveiðar í eigin lögsögu á ný. Ákvörðun Japana kom ráðinu ekki á óvart, hún hafi legið í loftinu í nokkra mánuði.

Mynd með færslu
 Mynd:
Yoshihide Suga, talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar, á blaðamannafundi í morgun.

Segja ákvörðunina grafalvarlega

Dýraverndurarsamtök segja ákvörðun Japana grafalvarlega. Nicola Benyon, talskona alþjóðlegra samtaka sem taka á ómannúðlegri starfsemi, segir þessa ákvörðun Japana jafngilda því að snúa baki við alþjóðalögum. Þetta væri sjórán og alþjóðasamfélagið ætti að fordæma ákvörðunina.

Japanir gengu í Alþjóða hvalveiðiráðið 1951 en úrsögnin tekur gildi 30. júní á næsta ári. Daginn eftir er áætlað að hefja atvinnuveiðar í japanskri lögsögu og um leið munu Japanir hætta öllum hvalveiðum í Suður-Íshafi og annarstaðar á suðurhveli jarðar. Mjög hefur dregið úr veiðum og neyslu Japana á hval á síðustu árum og áratugum. Nú er svo komið að meirihluti landsmanna borðar sjaldan eða aldrei hvalkjöt og neyslan er komin niður í 5.000 tonn á ári, í stað 200.000 tonna á sjöunda áratugnum.