Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hefur myndað veðrið á Hólmavík daglega í 3 ár

19.08.2018 - 10:07
Íbúi á Hólmavík hefur yfir tólf hundruð sinnum lagt lykkju á leið sína til að smella af daglegri mynd af bænum og veðrinu. Í stað þess að reiða sig á veðurminnið getur hann nú flett upp veðrinu þrjú ár aftur í timann. Hann hefur notað orðin heiðskírt og léttskýjað átta sinnum í veðurlýsingum sínum í sumar.

Tekur mynd og veður og setur inn á Facebook

Sverrir er á leiðinni að taka daglega mynd, á sama stað, af Hólmavík. „Bara tekin ein mynd á dag og ég skrifa veðurlýsingu með myndinni, vindátt, hitastig, skýjafar, eins og það er á þeirri stundu sem myndin er tekin. - Og set inn á Facebook,“ segir Sverrir Lýðsson.

Erfitt að muna eftir veðrinu

Hvernig kom þetta til?
„Það er þetta með veðurminnið. Stundum eru menn að rifja upp hvernig veðrið var síðasta vetur og ég er ekki þannig stemmdur að ég muni nokkurn skapaðan hlut með veðrið, svo mér fannst eins og ég gæti verið með eitthvað skráð í myndum. Maður er alltaf með símann á sér og það er ágætismyndavél í símanum. Og þetta virtist bara vera góð hugmynd.“

Átta sinnum notað orðin „léttskýjað“ og „heiðskýrt“

Rúmlega tólf hundruð dagar, og því tólf hundruð myndir, eru síðan Sverrir tók að leggja myndatökuna í vana sinn. „Ég byrjaði á þessu í mars 2015 og það eru ekki margir dagar sem að hafa fallið út.“ Sverrir þarf því ekki lengur að reiða sig á veðurminnið til síðustu þriggja ára og gat til dæmis flett því upp að í sumar hefur hann aðeins átta sinnum skrifað orðin heiðskírt eða léttskýjað í veðurlýsingar sínar. „En auðvitað hafa komið einhverjar sólarglennur þar á milli,“ segir Sverrir Lýðsson.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður