Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hefur hopað um 887 metra á 20 árum

22.06.2014 - 20:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Sólheimajökull hopar og á honum verða sífelldar breytingar og fyrir vikið verður æ erfiðara að komast á jökulinn. Á 20 ára tímabili hopaði jökullinn um 887 metra.

Allt að 300 ferðamenn fara á dag á Sólheimajökul nú yfir sumarið. Sólheimajökull hefur látið á sjá. „Hann hopaði átta metra í fyrra og 40 metra tvö ár á undan. Sólheimajökull er mjög sérstakur jökull. Hann bregst rosalega hratt við veðurfarsbreytingum,“ segir Jónas Grétar Sigurðsson, leiðsögumaður og stærðfræðinemi.

Hopun jökulsins sést vel á gömlum myndum. Núna er dágóður gangur frá bílastæði að jökulrótum en árið 2003 náði jökull að bílastæðinu. Í ritgerð Björns Oddssonar jarðfræðings kemur fram að jökullinn hafi hörfað um 887 metra á 20 ára tímabili frá 1995.

Aðspurður segir Jónas þessa sífelldu breytingu hafa áhrif á skipulagðar ferðir með ferðamenn. „Já þessi hraða bráðnun hún veldur því að það er að myndast lón fyrir framan jökulinn, þið sjáið það hérna, og það er að valda því að flestir inngöngupunktar á jökulinn eru að bráðna í burtu. Þannig að við þurfum sennilega á næstu mánuðum og næstu árum að fara að finna út úr því hvernig við komumst á jökulinn.“ 

Sólheimajökull er svartur af eldfjallaösku bæði frá Kötlu og Eyjafjallajökli. Jónas segir svarta litinn flýta fyrir bráðnun. „Já ef þú ert með þunnt lag af svartri ösku þá flýtir hún fyrir bráðnun af því að þetta er svart og dregur í sig meiri hita. En eins og þið sjáið þá eru hólarnir sem standa upp úr, öll þessi drýli, þessar keilur, að þær eru þegar þú færð þykkt lag af öskunni og þá er hún að einangra frekar en að bræða hraðar.“

Leiðrétt klukkan 12:11 23. júní: Sólheimajökull hefur hopað um tæplega 900 metra frá árinu 1995 samkvæmt mælingum Jöklarannsóknarfélagsins. Í sjónvarpsfréttum um Sólheimajökul í gær skoluðust tölur til og var sagt að jökullinn hefði hopað um 240 metra á síðustu 20 árum. Hið rétta er að jökullinn hörfaði um 887 metra á tímabilinu 1995 til 2013. Síðan hafa einhverjir metrar bæst við. Á hlýindaskeiðinu frá 1930 til 1970 hopaði Sólheimajökull um 951 metra, en skreið síðan fram að nýju um 469 metra frá 1970 til 1995. Þá byrjaði hann að hörfa að nýju og er jökulsporðurinn nú tæplega 900 metrum innar en þá.