
Hefur engin áhrif á komu flóttamanna
Þetta kom fram í viðtali við Ólöfu Nordal innanríkisráðherra í Kastljósi í kvöld. Þar ræddi hún meðal annars viðbrögð við hryðjuverkaárásunum í París um liðna helgi. Sérstaklega þær fréttir að í Bandaríkjunum sé nær helmingur allra ríkja landsins búinn að fara fram á að komu sýrlenskra flóttamanna verði frestað vegna árásanna í París. Sömu fréttir berast frá leiðtogum nokkurra ríkja í austanverðri Evrópu, Póllandi og Ungverjalandi.
Ólöf var einnig spurð út í þá ákvörðun Útlendingastofnunar að vísa fjögurra manna sýrlenskri fjölskyldu sem óskað hafði eftir hæli hér á landi, til Grikklands. Fjölskyldan er enn á landinu enda hefur kærunefnd tekið fyrir erindi fjölskyldunnar. Ólöf hafði lýst því yfir í ræðu á þingi um miðjan september að sökum ástands í löndum eins og Grikklandi, Ungverjalandi og Ítalíu, væri ekki öruggt að senda þangað hælisleitendur, sem hingað leituðu. Fjölskyldan hafði fengið hæli í Grikklandi og til þess var vísað í ákvörðun útlendingastofnunar.