Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hefur engan tekjuskatt greitt hérlendis

Mynd með færslu
 Mynd:
Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, hefur fengið endanleg svör um að hann geti ekki kært sig inn á kjörskrá. Sigurjón Haraldsson tekur oddvitasæti flokksins í Suðvesturkjördæmi. Guðmundur hefur búið hér í þrjú ár en haft lögheimili erlendis og því ekki greitt tekjuskatt hér.

Guðmundur komst að því í gær að hann væri ekki á kjörskrá og því ekki kjörgengur til Alþingis í vor. Hann fól lögfræðingi sínum að kanna hvort hann gæti kært sig inn á kjörskrá. „Það er víst ekki hægt og ekkert við því að gera og þannig er það bara.“

Sigurjón Haraldsson rekstrarhagfræðingur tekur oddvitasætið á lista Hægri grænna í Suðvesturkjördæmi í stað Guðmundar. Sigurjón var í fyrsta sæti í Norðvesturkjördæmi. Þar hefur Íris Dröfn Kristjánsdóttir verið færð upp í fyrsta sæti framboðslistans. Þorsteinn Steingrímsson kemur þar nýr inn á lista í annað sætið í stað Írisar. Guðmundur útilokar ekki að hann taki ráðherrasæti komist Hægri grænir í ríkisstjórn, enda sé það stefna flokksins að ráðherrar segi af sér þingmennsku.

Guðmundur flutti lögheimi sitt frá Íslandi á níunda áratug síðustu aldar. Hann segist hafa búið hér á landi undanfarin þrjú ár en haft lögheimili í Tékklandi því þar hafi hann verið í atvinnurekstri. Hann hefur ekki greitt skatta á Íslandi síðustu ár. „Nei ég hef ekki greitt skatta hér, nema jú að sjálfsögðu náttúrulega virðisaukaskatt og þá skatta og það sem maður er að neyta hér en ég hef ekki verið að vinna hér,“ segir Guðmundur. Aðspurður hvort hann sjái ekkert athugavert við að einstaklingur sem ekki hafi greitt skatta hérlendis árum saman bjóði sig fram til setu á Alþingi svarar Guðmundur: „Mér finnst bara ekkert að því að einstaklingur bjóði sig fram til Alþingis. Nei, mér finnst bara ekkert að því.“

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands er ólöglegt að vera búsettur hérlendis en hafa skráð lögheimili erlendis. Ábendingar um slíkt eru skoðaðar og Þjóðskrá getur tekið ákvörðun um breytta skráningu lögheimilis, jafnvel afturvirkt.