Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hefur ekki áhyggjur þótt fjölgun hægist

10.08.2018 - 19:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland er eftirsóknarverður áfangastaður sem stenst væntingar ferðamanna, þrátt fyrir að vera einn sá dýrasti í heimi. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra. Hún hefur ekki áhyggjur af því að það hægi á fjölgun ferðamanna.

Forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins sagði í kvöldfréttum í gær að ferðaþjónustan væri hugsanlega fórnarlamb eigin velgengni. Hún hefði leitt til mikillar styrkingar krónunnar sem á móti hefði orðið til þess að ferðamenn dveldu skemur á landinu, eyddu fé með öðrum hætti og færu síður út á land. Þá segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar að verðlag á Ísland sé ekki jafn samkeppnishæft við önnur lönd og áður og bendir á að þeim fækki sem hingað koma frá Mið-Evrópu.

„Þetta auðvitað eru afleiðingar af verðlagi,“ segir Þórdís Kolbrún. „Auðvitað horfir maður til þess að það sé að fækka í ákveðnum hópum. Við viljum hafa fjölbreyttan hóp ferðamanna, meðal annars til að dreifa áhættu.“

Bandaríkjamönnum fjölgi

Þórdís bendir á að Bandaríkjamönnum sé að fjölga. „Þeir eyða töluvert af fé þegar þeir koma hingað. Aftur þarf maður að horfa á það að það er ekki fjöldinn sem skiptir máli. Oft skiptir hann ekki einu sinni svo miklu, heldur miklu frekar verðmætasköpun í greininni og hvað ferðamennirnir skilja eftir sig þegar þeir koma hingað.“

Stjórnvöld hafi vitað í töluverðan tíma að hægja myndi á fjölgun ferðamanna.  „Fjölgunin undanfarin ár er búin að vera ósjálfbær,“ segir Þórdís. „Hún hefur verið rosalega mikil, lengi. Við héldum að það myndi hægja á fyrr en það gerði. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að þessi fjölgun sé aðeins að minnka.“

Telur þú að Ísland sé að verða ósamkeppnishæft vegna hás verðs?

„Það auðvitað liggur fyrir að þegar land er orðið dýrast eða með þeim dýrustu, hefur það auðvitað áhrif á samkeppnishæfni þegar kemur að verðlagi. En við vitum líka að Ísland er enn þá mjög eftirsóknarverður staður til að koma á. Við sjáum að meðmælaskor er ótrúlega hátt, sem segir okkur að ferðaþjónustan er að standa sig mjög vel, ferðamenn eru ánægðir og Ísland stenst væntingar. Það er á endanum það sem skiptir öllu máli.“