Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hefja fullorðinsárin á vanskilaskrá

13.03.2018 - 08:34
Mynd: RÚV - Freyr Arnarson / RÚV
Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, segir að sífellt fleiri leiti til embættisins vegna smálána. Sér í lagi sé ungt fólk þar sem veruleg aukning hefur orðið í þessum lánum, þrátt fyrir mikla umfjöllun um þau.

Ásta sagði í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að sífellt fleiri hefji fullorðinsárin á vanskilaskrá, einfaldlega vegna þess að fólk átti sig ekki á afleiðingum þess að taka lán með háum vöxtum. Fólk á aldrinum 18 - 29 ára leitar til umboðsmanns í auknum mæli en Ásta segir brýnt að fræða ungt fólk um sína fjármálalegu framtíð. 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara

„Það sem við erum að leggja áherslu á er að auka fjármálalæsi svo að þeir sem taka þessi lán átti sig á hvað það kostar. Og líka sérstaklega með unga fólkið, hvaða þýðingu það hefur að lenda í vanskilum. Það er mjög sorglegt að sjá til dæmis ungt fólk, sem við sjáum mjög oft, sem er í raun og veru að hefja sitt fjármálalega líf á vanskilaskrá. Og það er bara mikil skerðing á lífsgæðum,“ segir Ásta.

Hún segir flesta taka lánin sem neyslulán. „Þetta eru miklar freistingar og við sjáum svo afleiðingarnar. Og mjög margir segja að þeir hafi ekki vitað hvað það kostaði að taka lánin og sjá eftir því að hafa tekið þau,“ bendir Ásta á.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV