Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hefja framkvæmdir við Kröflulínu strax

27.10.2016 - 12:58
Framkvæmdir við Kröflulínu
Framkvæmdir voru hafnar við Kröflulínu þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála stöðvaði þær að kröfu Landverndar. Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Landsnet ætlar strax að hefja framkvæmdir við Kröflulínu 4 í Skútustaðahreppi, eftir að sveitarfélagið veitti fyrirtækinu nýtt framkvæmdaleyfi í gær.  Gert er ráð fyrir því að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felli í dag úrskurð um framkvæmdaleyfi sem Þingeyjarsveit gaf út.

Framkvæmdir við Kröflulínu og Þeistareykjalínu, innan Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar, voru stöðvaðar að kröfu úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála í ágúst meðan nefndin hefði kæru Landverndar á útgáfu framkvæmdaleyfa sveitarfélaganna til meðferðar. Fyrr í þessum mánuði var svo framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps úrskurðað ógilt, vegna galla á málsmeðferð sveitarfélagsins þegar leyfið var gefið.

Fyrst og fremst hafði sveitarfélagið ekki rökstutt afstöðu sína til framkvæmdanna nógu vel, með tilliti til skipulags- og náttúruverndarlaga. Í náttúruverndarlögum er fjallað um verndun hrauns en þar tekið fram að ekki skuli raska því nema brýna nauðsyn beri til. Landvernd telur að svo sé ekki, en því er sveitarstjórn ósammála og telur of mikla hagsmuni í húfi til þess að neita Landsneti um framkvæmdaleyfi.

Jarðvinna heldur áfram

Verktakar Landsnets höfðu unnið í rúmlega tvo mánuði við að leggja línuna þegar framkvæmdir voru stöðvaðar. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets segir að framkvæmdir muni hefjast strax, innan Skútustaðahrepps.

„Framkvæmdaleyfið sem við fengum í gær, það gerir okkur kleift að halda áfram með þá jarðvinnu sem við vorum byrjuð með,“ segir Steinunn.

Niðurstaða í máli Þingeyjarsveitar gæti legið fyrir í dag

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fundar í dag um framkvæmdaleyfi Þingeyjarsveitar. Líklegt er að niðurstaða nefndarinnar verði gerð opinber í kjölfar fundarins, en alls óvíst er hvort framkvæmdaleyfið verði gert ógilt.

„Nú bíðum við bara eftir úrskurðinum og svo sjáum við hvað gerist í framhaldinu af því,“ segir Steinunn.