Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hefja formlegar viðræður um samgöngur

Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Birgir Þór Harðarson
Stýrihópur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á að ráðstafa 102 milljarða fjárfestingu ríkisins í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.

Frá þessu er sagt í færslu á vef Stjórnarráðsins. Hópnum er ætlað að hefja formlegar viðræður ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um næstu skref í uppbygginu samgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Í hópnum sitja einn fulltrúi frá þremur ráðuneytum, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, forsætisráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu, auk þriggja fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Í hópnum sitja:

  • Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu,
  • Sigrún Ólafsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu,
  • Sigurður Helgason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu,
  • Birgir Björn Sigurjónsson tilnefndur af SSH,
  • Guðrún Edda Finnbogadóttir tilnefnd af SSH,
  • Páll Björgvin Guðmundsson tilnefndur af SSH.

Hópurinn á að vinna tillögur um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirliggjandi er samkomulag um tillögu að framkvæmdum á stofnvegum, innviðum Borgarlínu og hjólreiða til næstu 15 ára. Samkomulagið má finna í skýrslu viðræðuhóps um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Fjárfestingaráætlun stjórnvalda í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu gerir ráð fyrir 102 milljarða fjárfestingu. Hugmyndir sveitarfélaganna um aðkomu ríkisins að fjárfestingu í innviðum Borgarlínu er fyrirferðamikil í áætluninni.