Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hefja formlegar viðræður í dag

02.01.2017 - 06:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formlegar stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefjast í dag. Guðni Th. Jóhannesson forseti veitti Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, stjórnarmyndunarumboð síðdegis á föstudag, daginn fyrir gamlársdag. Þá voru forystumenn flokkanna þriggja búnir að ræðast saman um nokkurt skeið og töldu sig hafa náð lengra en í fyrri viðræðum sínum.

Í Fréttablaðinu í dag segir að stóru deilumálin í viðræðum flokkanna þriggja hafi verið útkljáð og að stjórnarsáttmáli verði skrifaður í vikunni. Í honum verði meðal annars ákvæði um að Mjólkursamsalan falli undir samkeppnislög, að tollar verði lækkaðir á hvítt kjöt og að kosið verði um ESB-viðræður. Samkvæmt Fréttablaðinu verður hluti aflaheimilda boðinn upp árlega til að tryggja að markaðsverð fáist fyrir aflaheimildirnar

Morgunblaðið segist í dag hafa heimildir fyrir því að forystumenn Framsóknarflokksins og Vinstri grænna hafi síðustu daga rætt saman um hvort flokkar þeirra geti myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, sem nú er í viðræðum við Viðreisn og Bjarta framtíð. Í frétt Morgunblaðsins segir að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi farið yfir mál sem geti verið grundvöllur að viðræðum flokkanna þriggja um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið látinn vita af þessu, að sögn Morgunblaðsins.

Rúmlega tveir mánuðir eru liðnir frá alþingiskosningum, 29. október, og lausnarbeiðni Sigurðar Inga Jóhannssonar fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar, 30. október. Þetta er orðin fimmta lengsta stjórnarkreppa Íslandssögunnar og gæti komist í þriðja sætið um miðja vikuna.