Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hefðu mátt vanda orðfæri í yfirheyrslum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan hefði mátt vanda orðfæri í yfirheyslum yfir Tómasi Möller Olsen, að sögn Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Landsréttur telur að lögreglumenn hafi verið ágengir við yfirheyrslur.

Landsréttur staðfesti 23. nóvember síðastliðinn dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Thomasi Möller Olsen fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur. Í dómnum segir að í fyrstu skýrslutöku hafi lögreglumenn komið fram við hann af háttvísi. Í næstu skýrslutökum hafi gætt meiri ágengni og lögreglumenn hafi vænt hann um ósannsögli, og sagt að hann væri sekur um að hafa myrt manneskju og falið líkið. Í dómi Landsréttar Thomasi Möller, segir að þessar aðferðir við skýrslutöku, séu andstæðar ákvæði reglugerðar um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu. Þær hafi hins vegar ekki brotið í bága við ákvæði laga um meðferð sakamála og ekki haft áhrif á framburð.

Karl Steinar Valsson er yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Landsdómur gerir athugasemd við orðfæri okkar í tiltekinni yfirheyrslu og við getum alveg tekið undir það að við hefðum þurft að huga kannski aðeins betur að því orðfæri sem þarna var notað og munum brýna fyrir okkar fólki að gera það.“

Þó verði að hafa aðstæðurnar í huga. Lögregla hafi haft sterkar sannanir fyrir því að hinn yfirheyrði byggi yfir vitneskju, sem brýnt var fyrir lögreglu að fá fram.