Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hefðu átt að orða hlutina öðruvísi

22.02.2014 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, segir að ákvörðun stjórnarflokkanna um að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka séu ekki svik við kjósendur. Heppilegra hefði verið að orða hlutina með öðrum hætti í aðdraganda kosninga heldur en að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sögðu báðir í aðdraganda kosninga að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB.

Þingsályktunartillaga stjórnarflokkana um að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka fer til fyrstu umræðu á Alþingi í næstu viku. Málið fer svo til utanríkismálanefndar þar sem leitað verður eftir umsögnum og gestir kallaðir til. 

„Skilyrði þess að til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi var það að ákveðið væri að halda áfram,“ segir Birgir. „Auðvitað er rétt að það féllu ýmiss ummæli í aðdraganda kosninganna. En frá því að kosningarnar fóru fram og síðan ríkisstjórnin var mynduð, hafa menn verið að velta fyrir sér hvernig ætti að nálgast þetta viðfangsefni. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því að hann sæi ómöguleika í því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu undir þeim kringumstæðum að ríkisstjórn og þingmeirihluti sem eru andvíg aðild og aðildarviðræðum ættu að fylgja því máli fram á þessum tíma.“

Formenn stjórnarflokkanna höfðu þessa skoðun í aðdraganda kosninganna. Voru það mistök að hafa lofað þessu fyrir kosningar og geta ekki staðið við það? „Það má orða það þannig að menn hefðu sennilega átt að orða hlutina með öðrum hætti. Það sem hinsvegar hefur gerst í millitíðinni er að menn hafa gert hlé á viðræðunum, menn hafa upplifað það að vera í þeirri stöðu að vera umsóknarríki án eþss að vera í virkum viðræðum. Sú reynsla sýnir mönnum einfaldlega fram á að það  er heiðarlegra gagnvart kjósendum Ísland, gagnvart samstarfsmönnum í Evrópu, að hafa línurnar skýrar í þessu.“

Í hádegisfréttum kom fram að það virðist vera víðtæk andstaða við þessa ákvörðun stjórnarflokkanna innan úr atvinnulífinu. Er það ekki áhyggjuefni að forsvarsmenn atvinnulífsins komi fram og gagnrýni Sjálfstæðisflokkinn með þessum hætti, sér í lagi þegar Sjálfstæðisflokkurinn ætti að vera sá flokkur  sem hefði atvinnulífið á bakvið sig. „Tengsl okkar og atvinnulífsins hafa verið góð í gegnum tíðina, oftast nær, stundum verður skoðanamunur eins og kemur fram í þessu máli. Sá skoðanamunur hefur verið á borðinu lengi. Innan flokksins hefur verið tekist á um Evrópumálin árum saman.“ 

Mjög skiptar skoðanir hafa verið á lofti um þjóðaratkvæðagreiðsluna, innan flestra þingflokka. „Ég hef verið þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðsluleiðin væri út af fyrir sig klúður, ef það kæmi í hlut ríkisstjórnar og þingmeirihluta sem ekki ætlaði sér inn í ESB. Ég á bágt með að sjá fyrir mér að sú leið gæti hugsanlega gengið upp.“ Birgir hefur ekki áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn klofni. Stór orð hafi fallið áður í umdeildum málum. „Stöku sinnum hafa menn gengið úr flokknum af þessum sökum og það kann að gerast nú, en ég held að það sé ekki um klofning að ræða þó að það sé vissulega um að ræða ágreining um þetta tiltekna mál.“