Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hefði kannski átt að kanna betur

30.03.2016 - 19:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að hann hefði kannski átt að kanna betur að félag sem hann átti hlut í var skráð á Seychelleseyjum, en ekki í Lúxemborg. Það hefði hins vegar ekki breytt neinu í skattalegu samhengi

Fjármálaráðherra segist hafa keypt hlut í félaginu í tengslum við fasteignaviðskipti í útlöndum.  Allt í tengslum við félagið hafi þó komið fram á skattaframtali hans hér á landi. Hann hafi ekki vitað að félagið var skráð á Seychelleseyjum, en ekki í Lúxemborg. 

„Það kemur einfaldlega þannig til að málið hafði verið kynnt fyrir mér að Landsbankinn í Lúxemborg hefði komið á fót félagi sem að ætti að halda utan um eignina. Ég var aldrei viðskiptavinur Landsbankans í Lúxemborg, það voru þeir sem að fjárfestu með mér í þessu verkefni sem að voru í viðskiptatengslum við bankann, ég var aldrei í tengslum við bankann. Augu mín voru fyrst og fremst á verkefninu sem slíku en ekki þessu utanumhaldi, þessu fyrirkomulagi með félagið. Ég sá heldur ekki að það skipti neinu sérstöku máli, ég hefði kannski átt að kanna það betur, en það hafði  í sjálfu sér enga þýðingu eins og ég hef sagt frá í skattalegu samhengi á nokkurn hátt,“ segir Bjarni Benediktsson.

Skattasérfræðingar sem fréttastofan hefur rætt við  í dag segja að fram til ársins 2010 hafi verið erfitt að fá upplýsingar um tiltekin félög í Lúxemborg líkt og er enn með félög í svokölluðum skattaskjólum. Bjarni segir að mestu máli skipti varðandi hans mál, og mál  maka innanríkisráðherra og maka forsætisráðherra að fram hafi komið að menn hafi ekki verið að koma sér undan sköttum á Íslandi.  Eignum hafi ekki verið skotið undan eðlilegri skattlagningu. Umræðan sé óþægileg því stjórnvöld vilji hafa fókusinn á sín mál og þann árangur sem náðst hafi. Því skipti miklu að grein sé gerð fyrir málum sem þessum fljótt og vel, segir Bjarni. Eins og fram hefur komið hefur forsætisráðherra  ekki gefið fréttastofu kost á viðtali um þessi mál. 

„Mér finnst að forsætisráðherra hafi á endanum brugðist við með mjög mikilli og ítarlegri upplýsingagjöf, það verður ekki annað sagt,“ segrir Bjarni Benediktsson.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV