Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hefði frekar átt að kalla á lögreglu

30.08.2016 - 09:08
Flugvélaflakið á Sólheimasandi hefur mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn - Mynd: Youtube / Youtube
Landeigandi sem rukkaði ferðamann um andvirði hundrað þúsund króna fyrir að aka um lokað svæði að flugvélaflaki á Sólheimasandi hefði frekar átt að kalla til lögreglu. Þetta segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Ferðamaðurinn fór á bíl inn á svæðið en kom að lokuðu hliði á bakaleiðinni. Landeigandi neitaði að hleypa honum út nema gegn greiðslu 800 evra, andvirði rúmra hundrað þúsund króna. Ferðamaðurinn tilkynnti málið til lögreglu.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir landeigendur hafa heimild til að rukka fyrir umferð um land þeirra. Í þessu tilfelli hafi þeir þó leyft gangandi umferð en bannað umferð bíla um svæðið. Það hafi ferðamaðurinn ekki virt. „Eins og ég skil þetta er landeigandi þarna að sekta viðkomandi fyrir það. Það er engin gjaldtaka fyrir að fara á bíl inn á landið. Það er bara lokað fyrir bílaumferð,“ sagði Helga í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Minn skilningur er sá að landeigandi hefur ekki heimild til sektar. Í þessu tilfelli hefði hann átt að kalla til lögregluna. Hún er með þá heimild og hefði þá tekið við málinu. Auðvitað er þarna um einhverja upphæð sem er, einhverja öfgaupphæð að ræða og eitthvað sem ég held að menn séu ekki að horfa til. Þetta er einhvern veginn þess eðlis.“

Mikill straumur ferðamanna hefur legið að flugvélarflaki á Sólheimasandi. Flugvélin sem var í eigu Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hefur verið á sandinum í áratugi. Flakið hefur þó dregið sífellt fleiri ferðamenn á staðinn, sérstaklega eftir að hafa komið fyrir í myndböndum stórstjarna á vefnum.