Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Hefði átt að sinna rannsóknarskyldu

01.02.2011 - 11:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Hæstiréttur hefði átt að sinna rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum áður en hann ákvað að ógilda kosningar til stjórnlagaþings. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi lögfræðingafélags Íslands um ákvörðun Hæstaréttar.

Gunnar Eydal, fyrrverandi borgarlögmaður og skrifstofustjóri borgarstjórnar Reykjavíkur, fjallaði um ákvörðun Hæstaréttar að ógilda kosningar til stjórnlagaþings á fundi lögfræðingafélags Íslands í gær. Gunnar hefur mikla reynslu af framkvæmd kosninga í borginni. Einn stærsti annmarki sem Hæstiréttur fann á kosningunum var auðkenning kjörseðlanna. Gunnar er ósammála þeim forsendum sem rétturinn leggur til grundvallar um það atriði. 


„Hæstiréttur fullyrðir að það sé alkunna að sú aðferð sé oft viðhöfð að þegar atkvæðaseðlar séu stemmdir af í kjördeildum þá séu skrifuð niður nöfn kjósenda í þeirri röð sem þeir komu og kusu. Ég hef nú unnið lengi við þessi mál í Reykjavík og verið í góðu sambandi við kollega mína annars staðar, og við þetta kannast bara enginn,“ sagði Gunnar.


Þar sem niðurstaða Hæstaréttar er stjórnvaldsákvörðun en ekki dómur telur Gunnar að rétturinn hefði átt að fara að stjórnsýslulögum og þeim reglum sem stjórnsýslunni ber að starfa eftir. „Hæstiréttur virðist byggja á þessari staðreynd, sem hann segir að sé alkunna, án þess að það sé rannsakað frekar. Og þess vegna má spyrja, hvar er rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins? Bar ekki að rannsaka þetta frekar, hvort rétt væri fullyrðing kæranda, áður en byggt var á þessu sem málsástæðu,“ sagði Gunnar Eydal í viðtali við Spegilinn.