„Hef ekkert með skipan sendiherra að gera“

16.01.2019 - 11:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Það væri dónaskapur að bregðast ekki við beiðni um fundi með þingmönnum og ráðherrum, sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann var spurður hvort hann hafi átt fundi með Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra.

Bjarni var gestur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag þar sem fjallað er um ummæli Gunnars Braga um að hann hafi tekið loforð um sendiherrastöðu í framtíðinni af Bjarna.

Bjarni segist kannast vel við að hafa heyrt Gunnar Braga lýsa áhuga á starfi í utanríkisþjónustunni í framtíðinni. Hann segist hins vegar ekki hafa neitt með skipan sendiherra að gera, verandi fjármálaráðherra núna og þegar umrætt loforð á að hafa verið gefið árið 2014.

Bjarni segist ekki hafa lofað neinum greiða gegn skipan Geirs H. Haarde í sendiherrastöðu í Bandaríkjunum. Hann segist ekki heldur kannast við að hafa rætt um skipan Geirs á fundi með Gunnari Braga.

Eðlilegt að fyrrverandi stjórnmálamenn fái stöður

Spurður hvaða skoðanir hann hafi á því hvernig skipað er í stöðu sendiherra segist Bjarni gruna að það sé algengt að utanríkisráðherrar fái beiðnir eða fyrirspurnir frá samstarfsfólki í pólitík um skipanir í stöður í utanríkisþjónustunni.

„Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að þeir séu margir, fyrrverandi stjórnmálamennirnir, mjög vel til þess fallnir að taka að sér þau verkefni sem felast í sendiherrastöðunum,“ segir Bjarni og bendir á að listi sendiherra Íslands sé ekki síst litaður af stjórnmálamönnum. „Eins og listinn lítur út fyrir mér þá er hann blanda af þeim sem koma úr embættismannakerfinu og stjórnmálakerfinu.“

Fundurinn fyrst á dagskrá í desember

Upphaflega var reynt var að halda fundinn í desember en vegna þess að þingmennirnir Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svöruðu ekki fundarboði starfsmanna Alþingis var fundinum frestað.

Á Klausturupptökunum heyrist Gunnar Bragi stæra sig af því að hafa tekið loforð af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, um að hann fengi sendiherrastöðu í framtíðinni ef Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, yrði skipaður sendiherra. Gunnar Bragi skipaði Geir sendiherra í Bandaríkjunum árið 2014, á sama tíma og Árni Þór Gunnarsson, þáverandi þingmaður Vinstri grænna, var skipaður sendiherra í Finnlandi.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi