Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Hef aldrei verið vitni að svona tali“

04.12.2018 - 10:27
Mynd: Þorsteinn magnússon / RÚV
Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi þingmaður og formaður Bjartrar framtíðar, segir að hann muni ekki eftir öðrum eins ummælum og heyrist á upptöku af samtali sex þingmanna á bar við þinghúsið. Hann segir slæmt að reynt sé að snúa umræðunni þannig að málið snúist um hvort aðrir hafi sagt sambærilega eða aðra og verri hluti.

„Ég hef fylgst með stjórnmálum í mörg, mörg ár, síðan ég var sex eða átta ára á náttfötunum heima að hlusta á stjórnmálamenn tala hátt á heimili foreldra minna. Ég hef aldrei verið vitni að svona tali,“ sagði Guðmundur í Morgunútvarpinu á Rás 2 og vísaði til starfa föður síns, Steingríms Hermannssonar heitins sem var forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins um langt árabil.

Guðmundur gefur lítið fyrir tal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um að aðrir hafi viðhaft sama og jafnvel verra orðfæri en þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins á barnum Klaustri. „Eitt er að fara á bar og gera upp á bak. En að koma siðan eftir það og halda því fram að þetta sé vanalegt og að þetta bara sé það sem allir gera. Og núna er umræðan farin að snúast um það,“ sagði Guðmundur. „Mér finnst mjög mikilvægt að umræðan fari ekki að snúast um það núna að lúsleita að einhverjum öðrum sem hefur notað til dæmis þetta orð um samþingkonu sína einhverntímann, mögulega 1978. Þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um þá standarda sem við ætlum að reisa þingmennsku.“

Guðmundur sagði að í siðferðislegu afstæði samtímans þar sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, afsaki allar sínar gjörðir með því að þannig sé veröldin bara væri stjórnmálamenningin þannig að menn gætu setið allt af sér. „Mig grunar að menn séu að veðja kannski á Áramótaskaupið, að þetta verði tekið hressilega þar. Að þjóðin hlægi og svo verði þetta búið. Ef þú ætlar að komast upp með þetta held ég að þú getir það. Svo kemur eitthvert annað mál í næstu viku. En eiga stjórnmálin að vera svona?“ Guðmundur segist sannfærður að fullt af fólki myndi líta svo á að ef það yrði uppvíst að sömu hlutum og þingmennirnir á Klaustri ætti það ekki erfitt með að reikna sig að þeirri niðurstöðu að segja af sér. „Spurningin sem blasir við er: Af hverju er það svona rosalegt í íslensku samhengi að segja af sér?“