Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hauks leitað á öllum sjúkrahúsum

08.03.2018 - 16:19
Mynd með færslu
Mynd frá International Freedom Batallion Mynd: Facebook - RÚV
Fjölskylda Hauks Hilmarsson, sem er sagður hafa fallið í stríðsátökum í Sýrlandi í lok febrúar, telur sig vera búna að púsla saman sögunni af ferðum hans í grófum dráttum. Hún hafi áreiðanlegar heimildir fyrir því að YGP, Varnarsveitir Kúrda, telji hann af og viti nokkuð nákvæmlega hvar hann hafi fallið „en við vitum ekki enn þá hvar líkið er.“

Þetta kemur fram í færslu sem móðir Hauks, Eva Hauksdóttir, skrifar á bloggsíðu sinni. 

Þar kemur fram að Kúrdar hafi ekki komist inn á árásarsvæðið til þess að leita en að leitað hafi verið á öllum sjúkrahúsum í borginni en Haukur ekki fundist.

Fram kom í yfirlýsingu, sem fréttastofa fékk frá Varnarsveitum Kúrda í Afrín-héraði, að talið væri að Haukur hefði fallið í þorpi sem kallað er Badina í Rajo-héraði.

Í færslu Evu segir enn fremur að fullyrt hafi verið í tyrkneskum fjölmiðlum að Tyrkir séu með líkið og að það verði sent heim „en það hefur enginn haft samband við íslensk yfirvöld vegna þess og þetta gæti verið byggt á sögusögnum eða hreinlega áróðursbragð.“

Þá hafi ekkert nýtt komið fram á fundi fjölskyldunnar með utanríkisráðuneytinu og lögreglunni í dag. „ Þau hafa engar viðbótarupplýsingar en eru í sambandi við sendiráð og stjórnsýslustofnanir víða um heim.“

Fjölskyldan óskar eftir því að ef svo ólíklega vilji til að einhver hafi upplýsingar sem virðast áreiðanlegar um það hvar líkamsleifar Hauks eru niðurkomnar, endilega hafið þá samband við [email protected] eða beint við lögreglu eða Utanríkisráðuneytið.