Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Haugnesingar ósammála eftir íbúafund

19.03.2015 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skiptar skoðanir eru meðal íbúa í Dalvíkurbyggð um hugmyndir um niðurrifsstöð TSverige Shippingline á Hauganesi. Fyrirtækið kynnti hugmyndir sínar á íbúafundi í gær.

Óhætt er að segja að hugmyndir sænska fyrirtækisins séu umdeildar í sveitarfélaginu. Markmiðið með íbúafundinum var meðal annars að kynna hugmyndir þess betur, útskýra útfærslur og fara yfir hvernig mengunarmálum verður háttað. Lóðin sem um ræðir er nálægt íbúðabyggð og næst lóðinni býr Sigfríð Ósk Valdimarsdóttir, í um hundrað og fimmtíu metra fjarlægð.

„Það var ekkert á þessum fundi sem varð til þess að ég skipti um skoðun, að hér eigi ekki að koma niðurrifsverksmiðja á okkar fallega Hauganes. Það var ekkert í þeirra upplýsingum sem að styrkti mig í þeirri trú að svo ætti að vera. Ég spurði þá hvort þeir hefðu reynslu af svona rekstri og hvort þeir væru með svona verksmiðjur annars staðar í heiminum. Það reyndist ekki vera, einn þeirra hafði unnið aðeins í svona verksmiðju. Það var ekki traustvekjandi," segir Sigfríð.

Trúir því ekki að niðurrifið verði vistvænt

Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, sagði á fundinum að ekki væri annað hægt en að hlusta á hugmyndir Svíanna. Skortur væri á atvinnu í sveitarfélaginu, sem hefði verið í vörn á síðustu árum vegna fækkunar íbúa. Sigfríð segist skilja það en þessi leið sé ekki sú rétta.

„Ég veit að hér vantar atvinnutækifæri en þetta er ekki það sem við þurfum á halda. Verksmiðja sem ætla að rífa niður skip sem eru full af asbesti og alls konar spilliefnum. Engin svona verksmiðja er vistvæn, það getur hver og einn sagt sér það. Það er hægt að lágmarka, en þú kemur aldrei í veg fyrir að spilliefni fari í náttúruna. Það þarf enginn mér að segja," segir Sigfríð.

Ekki sjálfsagt að aðrir taki alltaf við úreltum skipum

Aðrir eru jákvæðari fyrir þessum hugmyndum og einn þeirra er Elvar Reykjalín, framkvæmdastjóri Ektafisks á Hauganesi. Hann segir í umræðuhópi Haugnesinga á Facebook að hann sé jákvæður fyrir því að þessar hugmyndir verði skoðaðar ofan í kjölinn. Endurvinnsla sé göfugt og gott starf og það sé ekki sjálfsagt að aðrir eigi alltaf að taka við úreltum skipum. Þessi starfsemi verði mun umhverfisvænni en þekkist í dag.

Þá hafa komið þar upp hugmyndir í umræðuhópnum um að niðurrifsstöðin sjálf verði gerð aðlaðandi fyrir ferðamenn, sem geti þá kynnt sér starfsemina og að jafnvel verði sett upp safn á svæðinu sem sýnir gömul skip. Þannig mætti sameina þennan iðnað og ferðamennsku, í stað þess að litið sé á þetta tvennt sem andstæða póla.

Komu hingað í gegnum Invest in Iceland

Forsvarsmenn TSverige Shippingline segja að niðurrifsstöðin verði umhverfisvæn og keyrð áfram á raforku, engin olía verði notuð og afar lítið vatn. Hér sé vistvænt og endurnýjanlegt raforkukerfi sem samræmist þeirra hugmyndum vel. Þeim var bent á að fjárfesta hér á landi í gegnum átakið Invest In Iceland og hafa verið með þessar hugmyndir í vinnslu í um fjögur ár. Heildarkostnaður við fjárfestinguna yrði um 22 milljarðar króna, en metnaður Svíanna er mikill. Þeir segja að gangi þeirra hugmyndir upp verði niðurrifsstöðin leiðandi í þessum iðnaði í heiminum. Hún geti orðið fyrirmynd, vegna þess hve vistvæn hún eigi að verða.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV