Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hátt í 10.000 hafa kosið

Mynd með færslu
 Mynd:
9.582 hafa greitt atkvæði utan kjörfundar nú þegar vika er til Alþingiskosninga. Um 8.300 hafa kosið hér á landi, Tæplega 1.300 atkvæði hafa borist frá kjósendum erlendis.

Bergþóra Sigmundsdóttir, deildarstjóri þinglýsinga- og skráningardeildar hjá Sýslumanninum í Reykjavík og yfirmaður utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Laugardalshöll, segir að í dag hafi meira en 100 kosið í umdæminu, þar á meðal á þremur heilbrigðisstofnunum, en kosið er í dag á Hrafnistu, Grund og Mörkinni.

Í það heila hafa um 4.200 kosið í Reykjavík, þar af hafa tæplega 600 sent atkvæði sín til kjörstjórnarinnar. Ef tekið er mið af deginum í gær, þegar um það bið 3.400 höfðu kosið, eru það um 1.400 fleiri en kosið höfðu utankjörfundar á sama tíma í Alþingiskosningunum árið 2009. Enn fleiri, eða 3.907, höfðu kosið í forsetakosningunum viku fyrir kjördag.

Bergþóra segir að fólk sé farið að kjósa meira utankjörfundar en áður, 25% kjósenda hafi kosið utan kjörfundar í forsetakosningunum, og það megi ef til vill skýra með því að þær fóru fram um hásumar. Opið er til klukkan tíu í kvöld í Laugardagshöll. Opnunartíma annars staðar má sjá á vefnum, kosning.is eða syslumenn.is.