Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hátt bensínverð ekki skýrt með smæð markaðar

30.11.2015 - 08:40
Bensíndæla dælir bensíni í bensíntank bíls.
 Mynd: Robert Linder - RGBStock
Samkeppniseftirlitið segir að hátt eldsneytisverð verði ekki skýrt með smæð markaðar eða auknum kostnaði við sölu eldsneytis hér á landi. Þörf sé á aðgerðum til að bæta hag neytenda.

Frummatsskýrsla Samkeppniseftirlitisins á eldsneytismarkaði hér á landi sýnir að íslenskir neytendur greiddu of mikið fyrir eldsneyti á bíla sína í smásölu í fyrra, eða sem nemur fjórum til fjórum og hálfum milljarði króna með virðisaukaskatti. Verð á bifreiðaeldsneyti sé hærra hér en í flestum öðrum vestrænum ríkjum.

Í skýrslunni segir jafnframt að það sé áhyggjuefni að rannsóknin bendi til þess að samkeppni sé verulega skert á mikilvægum hluta hans og álagning olíufélaganna það mikil að hún gefi vísbendingu um takmarkaða samkeppni. Þá bendi óhagkvæmur rekstur olíufélaganna á þessu sviði til þess sama en álagning á eldsneyti til fyrirtækja gefi hinsvegar til kynna að meiri samkeppni ríki í sölu þess.

Samkeppniseftirlitið telur þörf á aðgerðum til þess að bæta hag almennings.

 

Það geti orðið með aukinni samkeppni meðal annars með því að tryggja að nýir keppninautar geti haslað sér völl á markaðnum. Reynslan erlendis sýni að stórmarkaðir sem selja eldsneyti geti veitt hefðbundnum olíufélögum mikið aðhald.

Erfitt sé að komast inn á íslenskan eldsneytismarkað og því þurfi að breyta. Þess má geta að Costco ætlar sér hafa bensínstöð við verslun sína sem opna á í Garðabæ næsta sumar.

Hagsmunaaðilar hafa frest til 19. febrúar til að skila rökstuddum athugasemdum við skýrsluna. Niðurstöðurnar geta tekið breytingum.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að eldsneytismarkaðurinn virðist ekki starfa sem skyldi og skili neytendum ekki ásættanlegum viðskiptakjörum.

„Á þessu stigi rannsóknarinnar bendir því flest til þess að þörf sé aðgerða á eldsneytismarkaði til þess að bæta hag almennings og efla íslenskt efnahagslíf. Mikilvægt er að fyrirtæki á markaðnum, viðskiptavinir þeirra, forsvarsmenn neytenda og stjórnvöld setji fram sjónarmið og tillögur sem miða að því. Best væri ef aðilar á markaðnum hefðu frumkvæði að úrbótum svo síður þurfi að koma til íhlutunar samkeppnisyfirvalda,“ segir Páll Gunnar.