Hatrið sigrar auðtrúa aumingja í Loddaranum

Mynd: Hörður Sveinsson / Hörður Sveinsson

Hatrið sigrar auðtrúa aumingja í Loddaranum

29.04.2019 - 19:50

Höfundar

Loddarinn er góð skemmtun en líka hugvekjandi sýning í ýmsum merkingum þess orðs, að mati gagnrýnanda Menningarinnar. Verkið var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu fyrir helgi í leikstjórn Stefans Metz.

Brynhildur Björnsdóttir skrifar:

Tartuffe eða Loddarinn er að sönnu 350 ára gamalt verk en það virðist hafa átt erindi við hin ýmsu samfélög gegnum tíðina miðað við hve oft og víða verkið hefur verið sett upp og af því má ráða að það geymir einhvern sannleika sem virðist eiga erindi, kannski ólíkt og kannski hið sama, á ólíkum tímaskeiðum.“Því leikritið rúmar og er á hverjum tíma vettvangur fyrir hina eilífu leit leikhúsfólks að nýjum túlkunum og sjónarhornum og það er einmitt sá eiginleiki þess sem gerir það sígilt.” segir Guðrún Krisinsdóttir Urfalino í mjög áhugaverðri grein sinni um verkið í leikskrá þar sem kemur meðal annars fram að verkið er sýnt víða um þessar mundir og virðist því höfða óvenju sterkt til okkar samtíma.

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson

Uppfærslurnar eru ólíkar og áherslurnar líka, mismunandi útfærslur eru til frá hendi Moliere, þar sem hann reyndi ítrekað að breyta verkinu til að aflétta bannfæringu kirkjunnar og krúnunnar af því. Það virðist fara eftir tíðaranda hvaða útgáfa er valin til uppsetningar og virðast ólíkir endar verksins ráða miklu um það en út í það verður að sjálfsögðu ekki farið hér til að spilla ekki upplifun væntanlegra áhorfenda. Nægir að segja að endirinn er mjög áhrifamikill.  

Sannheilagur guðsmaður

Verkið segir frá Orgeiri sem Guðjón Davíð Karlsson leikur, auðugum manni sem virðist vera leitandi á andlega sviðinu. Orgeir hefur þegar leikritið hefst tekið miklu ástfóstri við Guðreð eða Tartuffe sem leikinn er af Hilmi Snæ Guðnasyni, blásnauðan en sannheilagan guðsmann sem virðist með píslarvætti sínu vera fullkomin fyrirmynd í siðlegu líferni. Fjölskyldan, þó meingölluð sé á köflum, telur sig sjá í gegnum Guðreð, einkum þó ráðskonan Dóra sem leikin er af Kristínu Þóru Haraldsdóttur. Þetta veldur fjölskyldunni miklum áhyggjum, einkum þegar Orgeir ákveður að gefa Guðreði dóttur sína, Maríönnu, sem leikin er af Láru Jóhönnu Jónsdóttur, fyrir konu.

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson

Guðreð sjáum við ekki fyrr en í þriðja þætti af fimm, þó verkið snúist um hann frá fyrstu stundu. Þá stígur hann umsvifalaust í vænginn við Elmíru eiginkonu Orgeirs sem leikin er af Nínu Dögg Filipusdóttur, að stjúpsyni hennar Danna, sem Oddur Júlíusson leikur, áheyrandi, og sannar þannig skítlegt eðli sitt. Orgeir er þó áfram blindur á fyrrnefnt eðli Guðreðs og afleiðingarnar verða alvarlegar. Einnig leika í sýningunni Ragnheiður Steindórsdóttir, sem leikur móður Orgeirs, frú Petrúnellu sem er jafnheilluð af Guðreði og sonur hennar og Dóra Jóhannsdóttir sem fer með hlutverk Völu, heitkonu Maríönnu og Lögmeyjar lögfræðings. 

Á við margt í samtímanum

Verkið hefur yfirbragð farsa en það er þó stutt í snarpa ádeilu undir grínaktugu yfirborðinu. Moliere sækir í þessu verki margt til hinnar ítölsku commedia dell´arte hefðar, bæði í persónusköpun og farsakenndri framvindu þar sem flestar persónurnar eru dæmigerðar og byggðar á sterkri hefð. Leikstjóri Loddarans í Þjóðleikhúsinu, Stefan Metz, starfaði um tíma með Complicite leikhúsinu í London sem sækir ýmislegt til commedia dell´arte, áherslan þar er á líkamlegt leikhús  og hið sjónræna, og þess má glöggt sjá merki í sýningunni, fólk dettur á hausinn, kúgast, klaufast og sjá má glytta í beran kallbossa.

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson

Þá eru allar tímasetningar eins og vel stillt úrverk þannig að unun er á að horfa sem er líka einkenni á trúðleik og yfirleitt eitt það allra mikilvægasta í gamanleikhúsi, Stefan Metz hefur áður leikstýrt í Þjóðleikhúsinu við góðar undirtektir, verkum eins og Krítarhringnum í Kákasus og Eldrauninni þar sem Hilmir Snær fór einmitt með aðalhlutverkið og hlaut Grímuverðlaun fyrir. Metz hefur verið þekktur fyrir samfélagslega skírskotun í verkum sínum og hér mátti finna einskonar tilfinningu fyrir heimsenda, ógn sækir að en þeir sem ráða eru blindaðir af þægindum eða umbun sem þessi ógn hefur í för með sér og neita að horfast í augu við hana. Hinir stjákla í kring, gera sér grein fyrir ógninni en hafa engin ráð til að takast á við hana eða gera sér grein fyrir hversu afdrifaríkar afleiðingar hún getur haft. Þessi lýsing gæti átt við svo margt í samtímanum að það er ekkert skrýtið að verkið skuli vera sett upp svona víða um þessar mundir.

Það eina sem ég setti spurningamerki við í sambandi við leikstjórnina var að Maríanna skyldi vera heitbundin konu þar sem það er ekki ávarpað á neinn hátt í sýningunni. Við erum enn ekki komin á þann stað að kyn skipti engu máli og því hlýtur að vera stór sögn í því að ung kona sem hefur greinilega fengið samþykki fyrir ráðahag við einstakling af sama kyni skuli vera þvinguð í hjónaband með karlmanni, þar sem það sýnir annaðhvort mikla og afgerandi hugarfarsbreytingu hjá föður hennar eða algert skeytingarleysi um tilfinningar hennar nema hvort tveggja sé. Dóra Jóhannsdóttir fór hinsvegar vel með hlutverk Völu, heitkonu Maríönnu, og hjartnæmt og ruglingslegt samtal þeirra um hjónabandið mjög skemmtilegt.

Táknræn ryksuga

Leikararnir stóðu sig allir með mikilli prýði og greinilegt að þeim fannst gaman að takast á við áskoranirnar, sem voru töluverðar bæði hvað varðaði texta og leik. Fjölskylda Orgeirs í þessari sýningu er dekruð og spillt og gersamlega vanbúin að takast á við vandamál eða bjarga sér frá ógn og það var vel undirstrikað með búningum og látbragði. Að öðrum ólöstuðum má nefna Kristínu Þóru Haraldsdóttur sem hina kasóléttu ráðskonu Dóru sem var mjög fyndin, bæði til orðs og æðis og Himi Snæ sem hinn skinhelga en djöfullega Guðreð. Samleikur hans og Nínu Daggar í einu þekktasta atriði leikhúsbókmenntanna, táldráttaratriðinu, var bæði vel tímasettur og leikinn og áhorfendur veltust um af hlátri. Guðjón Davíð Karlsson var einnig sannfærandi sem hinn blekkti Orgeir.

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson

Leikmyndin leikur stórt hlutverk í sýningunni og skapar henni sterkt yfirbragð. Bæði leikmynd og búningar eru verk Seans Mackaoui sem einnig hefur hannað áður í Þjóðleikhúsinu. Leikmyndin eru híbýli fjölskyldunnar sem eru ríkmannleg, hátt til lofts og vítt til veggja en innanstokksmunir eru samtíningslegir og skrýtnir, tveir stórir páfuglar standa í einu horni og æpandi appelsínugulur jógabolti í öðru. Litir sýningarinnar eru einhvernveginn framandi en gríðarlega fallegir og einhver í næstu sætum hafði á orði að þetta væru “ekki íslenskir litir”. Leikmunir eru mjög skemmtilega nýttir, til dæmis ryksuga ein sem kom mikið við sögu og varð að lokum mjög táknræn að ógleymdum sérkennilegum skemmtara sem sá nánast alveg um tónlistarflutning í sýningunni fyrir utan sálmasöng Orgeirs.

Þýðing Hallgríms Helgasonar er frábær, rennur vel og er áheyrileg þrátt fyrir múlbundið málið. Oft var hlegið jafn mikið að orðaleikjunum í þýðingunni og galsanum á sviðinu. Sú ákvörðun að þýða flest nöfn persónanna truflaði mig ekki í þessari sýningu enda eru orðaleikir tengdir merkingu nafnanna sem erfitt er að ná án þess að nöfnin séu gagnsæ fyrir áhorfendur, eins og til dæmis Guðreður.

Loddarinn var góð skemmtun en líka hugvekjandi sýning í ýmsum merkingum þess orðs, hugleiðing um hvert við stefnum og hvað við höfum gert. Eftir áhrifamikið lokaatriðið greip ég mig í að raula á leiðinni út: „Auðtrúa aumingjar... Hatrið mun sigra!“

Tengdar fréttir

Leiklist

Hér á hálfkák ekki séns

Leiklist

Unglingauppreisn í Þjóðleikhúsinu

Leiklist

Léttleikandi og langt í frá yfirborðskennt

Leiklist

Dramatísk lagkaka ungra sviðshöfunda