Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hátíðarfundur fór 41 milljón fram úr áætlun

17.09.2018 - 13:27
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi - RÚV
Kostnaður við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands fór rúmar 40 milljónir fram úr upphaflegri áætlun. Fundurinn kostaði Alþingi tæpar 87 milljónir en í rekstraráætlun var gert ráð fyrir kostnaði upp á 45 milljónir. Búist var við nokkrum þúsundum gesta en aðeins 300 létu sjá sig og var hluti þeirra erlendir ferðamenn.

Kostnaðurinn er sundurliðaður í frétt á vef Alþingis.  Fram kom í frétt mbl.is um miðjan júlí að upphafleg kostnaðaráætlun hefði verið gerð fyrir 18 árum. 

Í fréttinni á vef Alþingis sést að dýrasti hluti hátíðarfundarins voru pallar og gangvegir en kostnaðurinn við þann hluta nam rúmum 38 milljónum.  Þær framkvæmdir munu þó áfram nýtast gestum þjóðgarðsins. Þá kostaði lýsingin 22 milljónir

2,2 milljónum var varið í veitingar, 1,4 milljón í ferðakostnað, 9 milljónum í ráðgjöf og hönnun og 2,5 milljónum í gæslu. 

Á vef Alþingis kemur fram að kostnaðurinn við hátíðarfundinn hafi verið nokkuð umfram áætlun. Það sé einkum vegna þess að ákveðið hafi verið að hafa lýsingu og hljóð af bestu gæðum þar sem fundurinn hafi verið í beinni útsendingu. „Einnig var haft í huga að upptaka af fundinum myndi varðveitast til framtíðar sem heimild um sögu þjóðarinnar.“

Fundurinn reyndist frekar umdeildur. Sú ákvörðun að fá Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, til að ávarpa fundinn var gagnrýnd harðlega en fulltrúar Píratar ákváðu að sniðganga hátíðarfundinn og þingmaður Samfylkingarinnar vék af honum þegar Kjærsgaaard tók til máls. Kjærsgaard sagði í viðtali við RÚV að framkoma Pírata og Samfylkingar hefði snúist um pólitíska samkeppni flokkanna um athygli en ekki hana.

Fréttinni hefur verið breytt þar sem upplýsingar á vef Alþingis um palla og gangvegi var sagður vera rúmlega 30 milljónir. Hann var hins vegar öllu hærri, eða 39 milljónir. Upplýsingar um heildarkostnað við hátíðarfundinn voru hins vegar réttar í upphaflegri útgáfu. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV