Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hátíð vonar um helgina

27.09.2013 - 12:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Hátíð vonar verður haldin um helgina, með bandaríska predikarann Franklin Graham í broddi fylkingar. Graham, sem er sonur eins frægasta predikara heims, Billys Graham, er mjög umdeildur, meðal annars vegna skoðana sinna á samkynhneigð.

Franklin Graham kom til landsins í nótt. Kjarninn greinir frá því að menn á hans vegum, fyrrverandi starfsmenn bandarískra leyniþjónusta, hafi haft samband við lögregluyfirvöld á Íslandi til að kanna hvort grípa þyrfti til öryggisráðstafana vegna komu Grahams hingað til lands.

Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir að í ljósi þess hver maðurinn sé, sé nauðsynlegt að hafa gæslu. Hann býst þó ekki við miklum látum. Það verði einhverskonar öryggisgæsla enda stór samkoma og maðurinn þekktur. 

Þjóðkirkjan tekur ekki þátt í fjármögnun hátíðarinnar, en einhverjar sóknir hafa þó lagt fé til hennar. Áætlaður kostnaður er ekki kominn á hreint, að sögn Ragnars, en hátíðin er að mestu leyti kostuð af Samtökum Billys Graham. 

Það vakti hörð viðbrögð þegar Þjóðkirkjan auglýsti Hátíð vonar á vef sínum á sama tíma og Hinsegin dagar voru haldnir. Svo fór að auglýsingin var fjarlægð af vefnum og kirkjan baðst afsökunar á birtingunni.

Samtökin 78 halda Mannréttindahátíðina Glæstar vonir á laugardaginn í Þróttaraheimilinu, sem stendur á móti Laugardalshöllinni þar sem Hátíð vonar fer fram, til að vekja athygli á mannréttindum og mótmæla viðhorfum Grahams.