Hástemmdar yfirlýsingar vegna örvæntingar

25.02.2014 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd:
„Eftir því sem örvæntingin verður meiri verða yfirlýsingarnar hástemmdari," sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundi í Valhöll í hádeginu og vísaði til orða Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingar, á Alþingi í gær.

Össur sakaði Bjarna um pólitísk umboðssvik með því að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka án þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig væri svikið loforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins.

Bjarni er framsögumaður á fundi í Valhöll, húsakynnum Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann ræðir stöðuna í Evrópumálum. Bjarni sagði í upphafi ræðu sinnar að í sínum huga væri inngangan í Evrópusambandið aðalatriði í þessu máli. Hann lýsti sig ósammála þeim mótmælendum sem hefðu tjáð sig í fréttum í gær og lagt áherslu á að fá að kjósa.

„Í reynd voru viðræðurnar stöðvaðar og það var forðast að taka ákvörðun um framhald málsins. Um hverja er hér rætt? Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þau stöðvuðu viðræðurnar á sínum tíma," sagði Bjarni.

Taldi að hægt væri að láta kjósa
Bjarni sagðist hafa talið á sínum tíma að hægt væri að láta kjósa um aðildarviðræður. Hann sagði tillöguna um að draga aðildarumsóknina til baka vera í samræmi við ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Hún fæli í sér að aðlögunarferli hæfist ekki fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. „Eru þetta svik? Nei, kæru vinir þetta eru engin svik."

Bjarni sagðist sjá fyrir sér eflingu Íslands án aðildar að Evrópusambandinu, greiða ætti niður skuldir, lækka skatta, efla atvinnulíf og bæta lífskjör. „Það eru jákvæð teikn á lofti hvað varðar afnám gjaldeyrishafta þar sem áætlun sem við settum í framkvæmd í haust er í fullum gangi."

Síðasti móhíkaninn
Bjarni sagði að aðildarsinnar væru margir hverjir fylgjandi aðild en með fyrirvörum. Þetta ætti jafnvel við um formann Samfylkingarinnar, sagði Bjarni. Það væri ólíkt Össuri Skarphéðinssyni, þingmanni Samfylkingar, sem Bjarni sagði að virtist vera að verða síðasti móhíkaninn á þingi.

[email protected]

Leiðrétt 26. febrúar 2014: Bjarni líkti Össuri Skarphéðinssyni, þingmanni Samfylkingar, við síðasta móhíkanann en ekki Samfylkingunni eins og stóð í upphaflegri útgáfu fréttarinnar.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi