Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Háskólinn í miðbænum“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Kristrún Sigurfinnsdóttir - RÚV
Ákvörðun Háskólaráðs Háskóla Íslands um að færa íþróttafræðinám frá Laugarvatni til Reykjavíkur hefur vakið hörð viðbrögð. Meðlimir síðu á Facebook , „Íþróttafræðasetur áfram á Laugarvatni“, voru orðnir rúmlega 3500 um þrjúleytið í dag. Þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa lýst vonbrigðum og vantrausti á Háskólann. Í gær var flaggað í hálfa stöng fyrir framan hús Íþróttafræðasetursins á Laugarvatni.

Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra og fyrsti þingmaður Sunnlendinga spyr hver þori í samstarf við Háskóla Íslands.  Hann segir það sorglega staðreynd að Háskóli Íslands, alls landsins, standi fyrir því að binda enda á 84 ára sögu íþróttakennaranáms á Laugarvatni. Guðmundur Ármann Pétursson sveitarstjórnarmaður í Grímsnes- og Grafningshreppi segir á sunnlenska.is að nú hafi Háskóla Íslands verið breytt í Háskólann í miðbænum. Hann segir einnig að þingmenn Sunnlendinga hafi glatað trausti borgaranna með því að geta ekki staðið vörð um metnaðarfullt háskólastarf á Suðurlandi. Allir þingmenn Suðurlands lýsa vonbrigðum með ákvörðunina á vef Vísis. Ásmundur Friðriksson þingmaður segir að Háskólinn hafi málað sig út í horn varðandi mögulegt samstarf við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV