Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Háskólinn á Akureyri er 30 ára í dag

05.09.2017 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Háskólinn á Akureyri
Í dag eru 30 ár liðin frá því Háskólinn á Akureyri tók til starfa. Afmælisins hefur verið minnst með ýmsum hætti allt þetta ár með fjölda viðburða. Þá var sérstök hátíðardagskrá í HA á sunnudag.

Háskólinn á Akureyri hóf starfsemi í húsnæði gamla Iðnskólans við Þingvallastræti árið 1987. Þá voru starfsmenn skólans 4 og nemendurnir 31. Nú 30 árum síðar er öll starfsemi skólans undir einu þaki við Norðurslóð. Þar starfa 200 manns og rúmlega 2000 nemendur eru við nám í HA.

Yfir 400 manns í afmælisveislu

Rúmlega 400 manns sóttu opið hús í HA á sunnudag, í tilefni afmælisins. Auk kynninga á námsframboði var hægt að reyna sig í ýmsum þrautum, kynnast notkun snjalltækja í námi og starfi, fara í annan heim í sýndarveruleika, sjá sprengjusýningu og kynnast undraheimum sjávarins. Um morguninn var hátíðardagskrá þar sem Sigrún Stefánsdóttir, formaður afmælisnefndar, tók til máls, Tove Bull, fyrrverandi rektor háskólans í Tromsö, hélt hátíðarræðu en einnig tóku til máls Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra, tveir fulltrúar nemenda, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis og formaður Góðvina HA.

Vilja opna HA enn betur fyrir samfélaginu

Eyjólfur Guðmundsson rektor segir að rauði þráðurinn í afmælisárinu hafi verið sá að opna HA enn betur fyrir samfélaginu. „Ég var mjög glaður yfir því að sjá þann mikla fjölda fjölskyldufólks sem heimsótti okkur á opna húsinu. Í barnahópnum er örugglega að finna fjöldann allan af framtíðarnemendum okkar,“ segir hann.

Dagskrá afmælisdagsins í dag er alfarið í höndum nemenda þar sem almenningi gefst m.a. tækifæri á að hlýða á niðurstöður úr samræðuþingi nemenda og starfsfólks um framtíðarsýn ungs fólks.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV